Forsíða TIME vekur umtal

Nýjasta forsíða TIME.
Nýjasta forsíða TIME. Af vefsíðu TIME

Mikið umtal hefur skapast um forsíðu nýjasta tölublaðs TIME. Fyrirsögnin á forsíðunni er „Ert þú nægilega mikil mamma?“ [e. Are You Mom enough?] og á forsíðumyndinni sést ung kona með dreng á brjósti, sem lítur út fyrir að vera nokkuð eldri en börn sem venjulega fá brjóstagjöf.

Konan reynist vera Jamie Lynn Grumet, 26 ára móðir frá Los Angeles, og drengurinn er næstum fjögurra ára sonur hennar, Aram.

Greinin sjálf fjallar um nýstárlega hugmyndafræði um barnauppeldi, svonefnt bindi-uppeldi [e. Attachment Parenting], sem felst í þremur grundvallarþáttum; framlengdri brjóstagjöf, sameiginlegum svefnvenjum og jafnframt að ungabörn séu fest við foreldra sína með ólum.

Greinin og forsíðumyndin hafa vakið umræður um hvort framlengd brjóstagjöf til þriggja ára eða jafnvel sex ára aldurs geti verið hættuleg fyrir börn. TIME og Grumet hafa jafnframt verið sökuð um að gera sér drenginn að féþúfu.

Á vef BBC er fjallað ýtarlega um þá gagnrýni sem TIME hefur sætt vegna forsíðunnar.

Hanna Rosin, blaðamaður hjá tímaritinu Slate, spyr til að mynda: „Hvers vegna er þessi aðlaðandi kona með þetta ofvaxna barn á brjósti á forsíðunni?“

„Myndin er eðlilegt skref í þeirri þróun að á leið sinni upp á stjörnuhimininn verði konur að sitja fyrir á ljósmyndum sem kynæsandi, nakta móðirin (Claudia Schiffer, Britney Spears, Jessica Simpson).“

Aðrir hafa haldið því fram að greinin fjalli í raun um lækninn William Sears, sem er upphafsmaður hugmyndafræðinnar um bindi-uppeldi, og hafa því gagnrýnt TIME fyrir að hafa aðlaðandi konu með bert brjóst á forsíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert