Grafhvelfing mafíósa opnuð í leit að stúlku

Svissnesku verðir Vatíkansins. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Svissnesku verðir Vatíkansins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Grafhvelfing ítalsks mafíósa var í dag opnuð í kirkju í Róm, í leit að vísbendingum um hvarf 15 ára gamallar stúlku fyrir tæpum 30 árum. Stúlkan var dóttir starfsmanns Vatíkansins og eru fjölmargar samsæriskenningar á lofti um hvarf hennar.

Hinn látni, Enrico de Pedis, var leiðtogi Magliana-glæpaklíkunnar sem hélt Rómarborg í heljargreipum á 8. og 9. áratug síðustu aldar. Hann var drepinn árið 1990 og grafinn í basilíku, en slíkt er fátíður virðingarvottur sem margir telja hann hafa fengið vegna vafasamra fjárhagstengsla við Vatíkanið.

Bendlað við skuldauppgjör í Vatíkaninu

Hin 15 ára gamla Emanuela Orlandi, sem var dóttir eins hæstráðenda í stjórnkerfi Vatíkansins, hvarf sporlaust 22. júní 1983. Örlög hennar hafa verið ráðgáta allar götur síðan en samsæriskenningasmiðir telja að hvarfið tengist skuldauppgjöri í Vatíkaninu. 

Ástkona de Pedis fullyrðir að glæpakóngurinn hafi verið viðriðinn mannrán og morð Orlandi og árið 2005 hringdi karlmaður sem ekki vildi gefa upp nafn sitt inn í spjallþátt í beinni sjónvarpsútsendingu og fullyrti að í grafhvelfingu mafíósans væri að finna vísbendingar um dauða stúlkunnar.

Loksins vilji til að rannsaka málið

Ítölsk yfirvöld sögðu í dag að fyrstu rannsóknir á grafhvelfingunni bendi til þess að í líkkistu de Pedis sé aðeins að finna líkamsleifar hans eins. Þetta virðist þó ekki hafa dregið úr samsæriskenningunum. „Dagurinn í dag er mikilvægt skref í átt að lausn ráðgátunnar sem hefur plagað okkur árum saman," sagði Pietro Orlandi, bróðir stúlkunnar, við ítalska fjölmiðla í dag. „Kannski, eftir svona mörg ár, er loksins kominn fram vilji til að útkljá málið. Ég vona að þetta sé upphafið að samstarfi milli dómara og Vatíkansins."

Vatíkanið gaf fyrir sitt leyti heimild fyrir því að grafhvelfingin væri opnuð og líkkistan rannsökuð. Líkamsleifar mafíuforingjans verða grafnar í kirkjugarði í Róm á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert