Bráðabirgðastjórn tekin við

Panagiotis Pikrammenos forsætisráðherra í nýrri bráðabirgðastjórn í Grikklandi.
Panagiotis Pikrammenos forsætisráðherra í nýrri bráðabirgðastjórn í Grikklandi. AFP

Bráðabirgðastjórn tók við völdum í Grikklandi í dag, en ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 6. maí. Grikkir munu kjósa að nýju 17. júní.

Nýja stjórnin eru undir forystu Panagiotis Pikrammenos, yfirdómara við stjórnlagadómstól Grikkja, og meirihluti ráðherra er háskólaprófessorar en einnig má þar finna hershöfðingja á eftirlaunum og diplómata.  „Það er augljóst að við erum að upplifa erfiða tíma,“ sagði Pikrammenos við fréttamenn í gær.

Embætti fjármálaráðherra er í höndum George Zannias, fyrrverandi yfirmanns efnahagsráðgjafanefndar ríkisstjórnarinnar. Utanríkisráðherra er Petros Molyviatis, fyrrverandi sendiherra á níræðisalddri.

Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, helstu lánardrottnar Grikkja, hafa varað  þá við því að engin frekari lán verði veitt, gangi niðurskurðaráætlanir Grikkja ekki eftir.

Lucas Papademos, fráfarandi forsætisráðherra, varar við því að það geti orðið Grikkjum skeinuhætt að hafna einhliða niðurskurðartillögum ESB og AGS, en vissulega eigi Grikkir að reyna að komast að samkomulagi á skynsamlegan hátt. „Sýni Grikkir þrjósku og neiti að standa við sinn hluta samningsins, getur það leitt til efnahagslegra hamfara í Grikklandi, landið myndi hafna utan evrusvæðisins og hugsanlega utan Evrópusambandsins,“ segir Papademos.

„Þær ákvarðanir sem við tökum núna geta haft afdrifarík áhrif á örlög Grikklands næstu áratugina,“ bætti hann við.

Grikkir íhuga nú sölu á eigum ríkisins. Almenningur í landinu er óttasleginn og hefur tekið lausafé sitt út úr bönkum að undanförnu vegna umræðu um að Grikkjum væri hollast að draga sig út úr evrusamstarfinu. Um 700 milljónir evra fóru því út úr bönkum landsins á mánudaginn.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, leggur áherslu á það við leiðtoga evruríkjanna að  þeir verði að grípa til aðgerða eða standa að öðrum kosti frammi fyrir hruni evrunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert