Hertar innflytjendareglur ef evran hrynur

mbl.is/Hjörtur

Bresk stjórnvöld undirbúa nú áætlanir þar sem gert er ráð fyrir neyðarráðstöfunum í innflytjendamálum í því skyni að setja hömlur á mögulegt flæði Grikkja og íbúa annarra ríkja Evrópusambandsins í Austur-Evrópu komi til þess að evrusvæðið hrynji. Þetta upplýsti Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, í dag.

Ráðherrann greindi frá þessu í viðtali við breska dagblaðið Daily Telegraph. Í fréttinni er bent á að íbúar allra Evrópusambandsríkja hafi rétt á að starfa hvar sem væri á innri markaði sambandsins að undanskildum nýjustu ríkjum þess, Rúmeníu og Búlgaríu.

Vaxandi áhyggjur séu af því að Grikkland verði neytt til þess að yfirgefa evrusvæðið sem gæti orðið til þess að landið lenti í greiðsluþroti með þeim afleiðingum að milljónir misstu vinnuna og færu þá að svipast um eftir vinnu í öðrum löndum.

Þá geti efnahagsvandinn breiðst hratt út til annarra evruríkja sem standi höllum fæti eins og Spánar, Írlands og Portúgals. Bretland sé hins vegar álitið í betri málum vegna þess að það stendur utan evrusvæðisins.

Haft er eftir May að eins og sakir standi bendi ekkert til þess að innflutningur fólks frá öðrum Evrópusambandsríkjum til Bretlands sé að aukast en erfitt sé að segja til um það hvernig þróunin geti orðið á næstu vikum.

Heimilt er samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins að grípa til slíkra ráðstafana við sérstakar aðstæður að því er fram kemur í fréttinni en annars ganga þær gegn reglum innri markaðarins um frjálsa för fólks.

Þá kemur ennfremur fram í fréttinni að bresk stjórnvöld hafi þegar undirbúið áætlanir meðal annars um að flytja breska ríkisborgara á brott frá Grikklandi ef mótmæli í landinu fara úr böndunum og tryggja að þeir hafi aðgang að fjármunum ef bankar og hraðbankar á meginlandinu verða óaðgengilegir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert