Skothríð í Finnlandi

Vopnaður karlmaður hóf skothríð af þaksvölum veitingastaðar í bænum Hyvinkää í Finnlandi um klukkan tvö í nótt með þeim afleiðingum að 18 ára stúlka lést. Átta eru særðir, þar af tveir alvarlega. Annar þeirra er lögreglukona.

Hyvinkää er skammt norðan við höfuðborgina Helsinki. Maðurinn skaut að fólki sem var við skemmtistaði og bari í bænum og skapaðist mikið öngþveiti. Hann skaut einnig að viðskiptamönnum matvöruverslunar.

Lögreglan handtók 18 ára pilt skömmu eftir árásina sem talinn er bera ábyrgð á skothríðinni. Hann var klæddur fatnaði í felulitunum og var með tvö vopn í fórum sínum. 

Samkvæmt frétt á vefsíðu sænska dagblaðsins Dagens Nyheter hefur maðurinn ekki komið áður við sögu lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert