Fjölskylda lést í loftárás NATO

Orrustuþota af gerðinni F-16.
Orrustuþota af gerðinni F-16. Wikipedia

Loftárás á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) varð átta að bana í austurhluta Afganistans í gær að sögn þarlendra embættismanna en á meðal hinna látnu voru sex börn. Þetta kemur fram í frétt AFP-fréttaveitunnar í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá talsmanni héraðsstjórnarinnar á svæðinu, Rohullah Samoon, var auk barnanna um að ræða móður þeirra og föður. Fjölskyldan hefði ekki haft nein tengsl við al-Kaída eða aðra hryðjuverkamenn.

„Þetta er rétt. Hús varð fyrir loftárás NATO. Maður að nafni Mohammad Sahfee, kona hans og sex saklaus börn þeirra voru drepin með grófum hætti,“ er haft eftir fulltrúa afganskra stjórnvalda.

Fram kemur í fréttinni að talsmaður NATO, Jimmie Cummings ofursti, hafi sagt að verið væri að rannsaka málið. Þá segir í fréttinni að dauði óbreyttra borgara af völdum NATO sé gríðarlega viðkvæmt mál í Afganistan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert