Stærsta e-töflusmygl í áratug

Hörð viðurlög eru við eiturlyfjasmygli í Indónesíu.
Hörð viðurlög eru við eiturlyfjasmygli í Indónesíu. mbl.is/Júlíus

Tollayfirvöld í Indónesíu lögðu nýverið hald á stærstu sendingu e-taflna í áratug. Um var að ræða u.þ.b. 1,4 milljónir taflna og er áætlað götuvirði tæpir 5,9 milljarðar króna.

Töflurnar fundust í gámi sem kom til landsins um borð í skipi frá Kína.

„Á mánudag fundust um 1,4 milljónir e-taflna faldar í 20 feta gámi. Þetta er stærsti fundur síðustu tíu ára,“ segir í yfirlýsingu.

Eftir að hafa fundið töflurnar eltu lögreglumenn flutningabílinn sem ók með gáminn frá höfninni í Jakarta að vörugeymslu. Þar voru átta manns handteknir í tengslum við innflutninginn.

Hörð viðurlög eru við eiturlyfjasmygli í Indónesíu og gætu mennirnir átt yfir höfði sér dauðadóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert