Ákærð fyrir að deyða ófætt barn sitt

Bei Bei gæti átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér verði hún …
Bei Bei gæti átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér verði hún fundin sek. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Yfirvöld í Indiana í Bandaríkjunum hafa ákært kínverska konu fyrir deyða ófætt barn sitt þegar hún reyndi að taka eigið líf með því að innbyrða rottueitur. Verði konan fundin sek á hún lífstíðardóm yfir höfði sér.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Guardian. Þar segir að Bei Bei Shuai hafi reynt að taka eigið líf eftir að kærastinn, sem var giftur annarri konu, yfirgaf hana, en hún var þá ófrísk og komin 33 vikur á leið.

Hún varð þunglynd í kjölfar sambandsslitanna, en kærastinn fór frá henni í desember 2010. Í ársbyrjun 2011 reyndi hún sjálfsvíg en sú tilraun mistókst. Sjálfsvígstilraunin leiddi hins vegar til þess að barnið lést.

Bei Bei, sem hefur verið búsett í Bandaríkjunum í 10 ár, var í framhaldinu flutt á geðdeild í Indianapolis. Guardian greinir frá því að um hálftíma eftir að barnið lést hafi rannsóknarlögreglumaður verið mættur á sjúkrahúsið til að spyrjast fyrir um málið vegna morðrannsóknar.

Í mars árið 2011 var Bei Bei handtekin og færð í öryggisfangelsi í Marion-sýslu. Hún var ákærð fyrir að hafa deytt barnið og var í haldi í 465 daga. Verði hún sakfelld gæti hún hlotið lífstíðarfangelsi.

Bei Bei segir í samtali við Guardian að hún sé staðráðin í því að sýna fram á sakleysi sitt, en réttað verður í máli hennar í desember nk. Þetta er í fyrsta sinn sem hún tjáir sig opinberlega um málið.

„Ég vil mjög gjarnan vera áfram í Bandaríkjunum,“ sagði hún þremur dögum eftir að hafa verið leyst úr haldi gegn greiðslu 50.000 dala tryggingargjalds. Það jafngildir um 6,5 milljónum kr.

„Ég vil vera hér og berjast. Ég er með gott lögfræðiteymi og óttast ekki lengur að mæta þessum ásökunum,“ sagði hún ennfremur.

Bei Bei ákvað að binda enda á sitt líf 23. desember árið 2010 með því að innbyrða rottueitur. Hún greindi vinum sínum frá því sem hún hafði gert og var í framhaldinu flutt í skyndi á sjúkrahús. Þar tókst læknum að bjarga lífi hennar.

Átta dögum síðar uppgötvaðist að ekki var allt með felldu hjá barninu. Þegar barnið var tveggja daga gamalt kom mikil heilablæðing í ljós. Barnið lést svo í fangi móður sinnar 2. janúar árið 2011.

Verjandi hennar, Linda Pence, segir ljóst að Shuai hafi glímt við alvarleg geðræn vandamál á þessum tíma. Pence segir að Shuai hafi verið mjög þunglynd og yfirbuguð af sorg þegar hún hitti hana fyrst á geðsjúkrahúsi.

Saksóknarinn er annarrar skoðunar. Fram kemur á vef Guardian að margir séu undrandi á harðri afstöðu hans. Þeir benda á að það sé ekki ólöglegt að fremja sjálfsvíg í Indiana. Það sé því tvískinnungur í því að sækja ófríska konu til saka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert