Foreldrar þríburanna kenna engum um eldsvoða

Þríburarnir Lillie, Jackson og Wilsher Weekes.
Þríburarnir Lillie, Jackson og Wilsher Weekes.

„Þetta voru mjög einstök börn,“ segja foreldrar tveggja ára þríburanna sem létust í bruna í verslanamiðstöð í Doha í Katar. Þau segjast ekki kenna neinum um harmleikinn.

Martin og Jane Weekes, frá Nýja-Sjálandi, mættu í viðtal við sjónvarpsstöðina TVNZ í gær í fyrsta sinn eftir brunann og ræddu um börnin Lillie, Jackson og Wilsher. „Við vorum fjölskylda sem fór út um allt, við ferðuðumst um heiminn, við fimm,“ sagði Jane Weekes. „Hvert sem við fórum þyrptist fólk í kringum börnin, þau glöddi alla hvert sem þau fóru. Fólk gekk upp að okkur úti á götu, fólk sem við höfðum aldrei hitt, og vildi bara vera með þeim, vera ljósmyndað með þeim, leika við þau og tala við þau.“

Eldurinn kviknaði í barnagæslu Villaggio verslanamiðstöðvarinnar á mánudaginn. Alls létust 19 manns í brunanum, þar af þrettán börn. Aðrir voru starfsmenn barnagæslunnar og slökkviliðsmenn. Rannsókn stendur yfir á upptökum brunans en handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur fimm háttsettum starfsmönnum miðstöðvarinnar.

„Þessi harmleikur, og þetta er harmleikur, var slys og við sem fjölskylda, og aðrar fjölskyldur, viljum vita og skilja hvað gerðist. Við verðum að skilja hvað gerðist en á þessari stundu er engum um að kenna. Þetta er nokkuð sem er afar sorglegt og þetta er ekki landinu að kenna, ekki fólkinu að kenna, þetta var hræðilegt atvik sem gerðist einn dag.“

Hún sagði að þríburunum hefði þótt afar skemmtilegt í barnagæslunni og það væri hughreysting að þau hefðu ekki verið einsömul þegar þau dóu. 

Lík barnanna verða flutt til Wellington í næstu viku og jörðuð.

Viðtalið við Martin og Jane Weekes: 

Frá Villaggio verslanamiðstöðinni á mánudaginn.
Frá Villaggio verslanamiðstöðinni á mánudaginn. STR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert