Allt stopp í kjarnorkuviðræðum við Íran

Herman Nackaerts og Ali Asghar Soltanieh yfirgefa fundarstað sinn í …
Herman Nackaerts og Ali Asghar Soltanieh yfirgefa fundarstað sinn í Vínarborg að loknum viðræðum. Þær báru engan ávöxt. DIETER NAGL

Viðræður milli Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, og Írana í Vín um kjarnorkuáætlun Írans sem fóru fram í dag báru engan ávöxt að sögn Hermans Nackaerts, aðaleftirlitsmanns IAEA. Hann lýsti yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna. Engin dagsetning hefur verið ákvörðuð fyrir næsta fund.

Fulltrúi Írana, Ali Asghar Soltanieh, sagði á móti að Íransstjórn vildi slá á áhyggjur manna um kjarnorkuáætlun sína: „Við erum tilbúnir til þess að eyða öllum vafa og sanna fyrir heiminum að framkvæmdir okkar eru eingöngu í friðsamlegum tilgangi og að engar af þessum ásökunum eigi við rök að styðjast.“ Hins vegar þyrftu samningsaðilar frið, ró og þolinmæði til þess að samningar mættu takast.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin gerði kröfur um að áætlun Írana yrði gegnsærri, en þeir liggja undir grun um að vilja koma sér upp kjarnorkuvopnum í skjóli friðsamlegrar kjarnorkuuppbyggingar. Meðal þess sem stofnunin vildi var aðgangur að stöðum þar sem grunur léki á að prófanir hefðu átt sér stað. IAEA hafði sérstakan áhuga á að fá að skoða Parchin herstöðina sem er nærri Teheran, höfuðborg Írans, en stofnunin telur að þar hafi átt sér stað grunsamlegar tilraunasprengingar að undanförnu.

Vesturveldin og Ísrael gruna Írana um græsku í kjarnorkumálum, en þeir halda því eindregið fram að eini tilgangur kjarnorkuáætlunar þeirra sé að beisla kjarnorkuna til borgaralegra nota. Forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, Yukiya Amano, sagði í lok maí að báðir aðilar nálguðust samkomuleg sem myndi leyfa stofnuninni frekari aðgang að stöðum, fólki og skjölum sem tengdust áætlun Írana, þar með talið Parchin-herstöðinni, en eftirlitsmönnum stofnunarinnar hefur tvisvar sinnum verið vísað þar frá á þessu ári. Amano varaði Írana þá við að þeir þyrftu að sýna mun meiri samstarfsvilja en þeir hafa gert hingað til til að slá á áhyggjur heimsbyggðarinnar af kjarnorkuáætlun þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert