Drepinn 4 ára vegna meintrar samkynhneigðar

Bandaríkjamaður hefur játað að hafa myrt 28 ára konu og …
Bandaríkjamaður hefur játað að hafa myrt 28 ára konu og fjögurra ára dreng vegna meintrar samkynhneigðar hans. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Maður í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum lýsti sig sekan um að hafa myrt 28 ára gamla konu og fjögurra ára dreng sem hann taldi vera samkynhneigðan. Maðurinn og konan voru í sambandi en drengurinn var sonur annarrar konu sem einnig var í sambandi við manninn.

Samkvæmt þarlendum fréttamiðlum fóru saksóknarar fram á dauðadóm yfir manninum Peter Lucas Moses, sem er sakaður um að hafa banað hinum fjögurra ára Jadon Higganbothan og hinni 28 ára, Antoinetta Yvonne McKoy. Ástæðan fyrir því að hann drap konuna var sú að hann óttaðist að hún myndi segja lögreglunni frá.

Forsvarsmaður öfgatrúaðs safnaðar

Moses, sem er 27 ára, er talinn vera forsvarsmaður öfgatrúaðs safnaðar þar sem meðlimirnir, hópur kvenna og barna, munu hafa kallað hann Guð. Moses mun hafa deilt heimili með að minnsta kosti þremur af þessum konum, sem litu á sig sem eiginkonur hans, og níu börnum. Heimilið sem hópurinn bjó í taldi eitt herbergi. Moses er líffræðilegur faðir allra barnanna níu, að undanskildum Jadon, sem hann myrti.

Söfnuðurinn sem Moses fór fyrir er þekktur sem Black Hebrews og meðlimir safnaðarins líta á sig sem eftirlifendur af ættkvíslum frá Ísrael til forna. Meðlimir safnaðarins eru einnig sagðir trúa því að framundan sé stríð kynþáttanna og að að því loknu muni þeldökkir ráða ríkjum, að því er kemur fram í dómskjölum.

Skaut drenginn fyrir að horfa á afturenda annars drengs

Fyrrum saksóknari, Tracey Cline, sagði dómara við vitnaleiðslur að Moses hefði skotið Jadon vegna þess að hann taldi drenginn vera samkynhneigðan. „Í trú þessara samtaka er samkynhneigð útskúfuð,“ sagði Cline við vitnaleiðslur.

Moses mun hafa óttast um samkynhneigð Jadons vegna þess að faðir drengsins yfirgaf móður hans, Vaniu Sisk, en hún var eins og áður segir ein af konum Moses. Að auki mun Moses hafa orðið vitni að því þegar Jadon sló í afturenda annars ungs drengs.

Bæði fórnarlömb Moses voru skotin í höfuðið, samkvæmt niðurstöðum meinafræðinga. Líkömum þeirra hafði verið komið fyrir í plastpokum og þeir grafnir niður í í bakgarði móður Moses.

Játning forðar Moses frá dauðadómi

Sagt er að játning Moses hafi komið mörgum á óvart, en hann átti einungis að mæta fyrir dómstólinn til þess að fara yfir stöðu málsins. Játningin hefur þau áhrif að í stað þess að eiga yfir höfði sér dauðadóm á Moses nú yfir höfði sér tvo lífstíðardóma án möguleika á lausn.

„Hann játaði að hafa framið tvö morð af fyrstu gráðu og að hann muni vitna gegn þeim sem eru saksóttir með honum ef hann fer í vitnastúkuna,“ sagði Leon Stanback, saksóknari.

Fimm aðrir ákærðir fyrir aðild að morðunum

Auk Moses eru Harris P. Leonard Moses og Sheila Moses, systkini hans, ákærð fyrir að vera meðsek að morðinu á McKoy.

Einnig eru móðir drengsins og tvær aðrar konur sem bjuggu með Moses, Larhonda Renee Smith og Lavada Quinzetta Harris, ákærðar fyrir morðið á McKoy og fyrir að vera meðsekar að morðinu á Jadon litla, samkvæmt því sem fréttir þar ytra herma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert