Vilja bera kennsl á „skógardrenginn“

Skógardrengurinn Ray.
Skógardrengurinn Ray. AFP

Unglingur sem gaf sig fram við yfirvöld í Berlín fyrir níu mánuðum segist hafa búið úti í skógi í fimm ár. Lögreglan hefur nú birt mynd af piltinum og biður fólk um aðstoð við að bera kennsl á hann. Á myndinni er sést unglingurinn, sem segist heita Ray, ljóshærður og brosandi út að eyrum. Fréttin um piltinn fór sem eldur í sinu um allan heim í fyrra.

„Þrátt fyrir ítarlega rannsókn hefur lögreglunni ekki tekist að bera kennsl á drenginn,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar í Berlín. „Hver er þessi drengur? Getur þú aðstoðað okkur við að bera kennsl á hann?“ segir í auglýsingu lögreglunnar.

Drengurinn segist fæddur 20. júní árið 1994 og verði því 18 ára á þessu ári. Hann mætti í ráðhúsið í Berlín 5. september í fyrra, talaði ensku  og örfá orð í þýsku.

„Hann sagðist aðeins vita fornafn sitt og fæðingardag og fór svo í umsjón barnaverndaryfirvalda,“ segir talsmaður lögreglunnar. „Þar sagði hann ótrúlega sögu sína.“

Drengurinn gat ekki, eða neitaði, að gefa upp nöfn foreldra sinna eða skyldmenna eða nokkrar aðrar upplýsingar. Sagðist hann hafa búið úti í skógi ásamt föður sínum í fimm ár en svo hafi faðir hans látist í ágúst í fyrra.

Ray sagði lögreglunni hvar hann hefði grafið föður sinn, „í holu í jörðunni undir nokkrum steinum“, eftir að hafa gengið í norður í fimm daga. Hann gat ekki útskýrt hvers vegna faðir hans lést og lögreglan fann aldrei lík hans.

Ray sagði að móðir sín, Doreen, hefði látist í bílslysi, sem hann þó mundi ekkert eftir. Þá hafi hann verið tólf ára. Sjálfur hefði hann fengið ör á andlit sitt í slysinu.

Lögreglan segist mjög svo efast um sannleiksgildi sögu Rays. Því hafi verið ákveðið að birta mynd af Ray og vonast eftir hjálp frá almenningi.

Lögreglan telur að drengurinn sé 16-20 ára gamall, bláeygður, vel til hafður og kraftalega vaxinn. Hann er með þrjú ör á enninu, önnur þrjú á hökunni og eitt á hægri handlegg.

Hann var með tjald, svefnpoka og nýlegan bakpoka og hrein föt er hann gaf sig fram. Hann var með hálsfesti um hálsinn sem í er grafinn bókstafurinn „D“ sem hann segir upphafsstafinn í nafni móður sinnar, Doreen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert