Egyptar kjósa um helgina

Seinni hluti sögulegra forsetakosninga fer fram í Egyptalandi nú um helgina. Þær fyrstu þar sem þjóðin fær að kjósa um hver fer með æðsta embætti landsins. Valið stendur nú á milli Mohammed Mursi sem fer fyrir múslimska bræðralaginu og Ahmed Shafiq sem var áður forsætisráðherra í ríkisstjórn Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta.

Óhætt er að segja að Egyptar glími við mikinn lýðræðisvanda. Mikil óvissa er um hvert hlutverk forseta Egyptalands verði en það er ekki nægilega skýrt í nýrri stjórnarskrá landsins. Þá dæmdi Stjórnlagadómstóll landsins nýverið að niðurstöður þingkosninga sem fóru fram á síðasta ári ólögmætar þar sem þær hefðu ekki verið í samræmi við stjórnarskránna.

Fjölmenni mótmælti í alla nótt í Kaíró höfuðborg landsins en margir telja lítinn árangur hafa hlotist síðan Mubarak hrökklaðist frá völdum. Skömmu eftir hið svokallaða arabíska vor varð mikil lýðræðisvakning og landsmenn voru vongóðir og fullir eldmóði. Það sást meðal annars á góðri þátttöku í þingkosningunum og fyrri umferð forsetakosninganna.

Nú virðist staðan önnur og virðast margir ætla að sniðganga forsetakosningarnar um helgina. Til að mynda var lítið um biðraðir á kjörstöðum í Kaíró í morgun samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins, BBC.

„Byltingunni var stolið frá fólkinu,“ segir Nabil Abdul Fatah, kaupmaður og viðmælandi AP fréttastofunnar, sem stóð fyrir utan kjörstað í Imababa hverfinu í Kaíró nú í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert