Rodney King er látinn

Rodney King lést í dag 47 ára að aldri.
Rodney King lést í dag 47 ára að aldri. JOE KLAMAR

Rodney King lést í dag, 47 ára að aldri. King rataði í heimsfréttirnar árið 1991 eftir að hann hafði mátt þola barsmíðar af hálfu lögreglumanna í Los Angeles í Bandaríkjunum. Atburðurinn varð kveikjan að miklum óeirðum þar í borg. King fannst látinn í sundlaug við heimili sitt í morgun.

Saga Kings vakti heimsathygli en hann er blökkumaður og starfaði sem leigubílstjóri í Los Angeles. King var stöðvaður af lögreglu í marsmánuði árið 1991 vegna þess að hann hafði ekið of hratt. Lögreglumenn sem handtóku hann gengu gjörsamlega í skrokk á honum en atvikið náðist á myndband sem var sýnt um allan heim. Lögreglumennirnir börðu King oftar en 50 sinnum með kylfum sínum og byssuskeftum.

Lögreglumennirnir voru ákærðir og dómsmál vegna atviksins varð kveikjan að miklum og mannskæðum óeirðum í Los Angeles árið 1992. Rúmlega 50 manns létu lífið í blóðugum átökunum og gríðarlegt eignatjón fylgdi einnig.

Rodney King hefur æ síðan unnið ötult starf gegn kynþáttafordómum, meðal annars með því að halda máli sínu á lofti. Hann komst þó oft í kast við lögin undanfarin ár. Árið 2003 var King handtekinn fyrir að berja kærustu sína og árið 2005 var hann handtekinn fyrir að hóta að drepa dóttur sína og barnsmóður eftir að þær höfðu átt í útistöðum við kærustu hans. Þá varð hann fyrir skotárás árið 2007.

King fannst látinn á botni sundlaugar sinnar í morgun. Svo virðist sem hann hafi drukknað. Ekki lítur út fyrir að andlátið hafi átt sér stað með saknæmum hætti.

Barsmíðar lögreglumanna á King vöktu heimsathygli og urðu kveikjan að …
Barsmíðar lögreglumanna á King vöktu heimsathygli og urðu kveikjan að blóðugum átökum í Los Angeles árið 1992. -
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert