Engar „töfralausnir“ til, segir Merkel

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, varaði í dag við þeirri trú að fljótlegar eða einfaldar lausnir væru til á skuldavanda Evrópuríkjanna. Þessi ummæli lét hún falla í neðri deild þýska þingsins í dag, en forystumenn ESB-landanna koma saman í Brussel á morgun. 

Merkel sagði í ræðu sinni, sem tók 25 mínútur í flutningi vegna ítrekaðs lófataks þingmanna, að það þyrfti að takast á við vandann frá grunni ef sigrast ætti á honum. Allt annað væri dæmt til að mistakast og yrði einungis til sýnis. Merkel varaði við því að máttur Þýskalands til þess að bregðast við væri ekki ótakmarkaður.

Merkel mun svo hitta François Hollande Frakklandsforseta síðar í dag til þess að ræða ágreiningsmál tveggja stærstu ESB-ríkjanna áður en fundurinn í Brussel hefst á morgun. Hollande hefur hafnað hugmyndum Merkel um aukinn niðurskurð og vill jafnframt að evrusvæðið fari að gefa út sameiginleg skuldabréf. Fleiri leiðtogar í Evrópu hafa tekið undir með franska forsetanum. Merkel hefur hins vegar ekki farið í neinar grafgötur með að hún vill hvorki evruskuldabréf né að evrusvæðið hafi sameiginlegar skuldir, þar sem hún trúir ekki að slíkt myndi leysa vandann til lengri tíma litið. Samkvæmt frétt Daily Telegraph í gær sagði Merkel við þingmenn úr samstarfsflokki hennar að hún myndi ekki samþykkja evrópsk skuldabréf „svo lengi sem ég lifi“. Viðbrögð samstarfsflokksins voru þau að fagna orðum hennar og óska kanslaranum langlífis. Merkel ítrekaði andstöðu sína í ræðunni í dag.

Meðal þess sem verður rætt um á fundinum um helgina er skýrsla sem Herman Van Rompuy, forseti ESB, Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar, Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, og Jean-Claude Juncker, yfirmaður evruhópsins, standa að. Í henni er meðal annars lagt til að Evrópusambandið fái endanlegt vald yfir fjárlögum evruríkjanna og að eftirlit með fjármálageiranum verði sam-evrópskt.

Þá er einnig gert ráð fyrir að samþykkt verði fjárhagsaðstoð upp á 130 milljarða evra til þess að örva hagvöxt innan sambandsins. Merkel sagði að Þýskaland væri að senda skýr skilaboð með því að styðja við aðstoðina.

Merkel flytur ræðu sína í þýska þinginu í dag.
Merkel flytur ræðu sína í þýska þinginu í dag. AFP/ ADAM BERRY
mbl.is

Bloggað um fréttina