Handtóku og myrtu tugi ungmenna

Hermenn í sýrlenska hernum halda uppi myndum af forseta landins, …
Hermenn í sýrlenska hernum halda uppi myndum af forseta landins, Bashar al-Assad. AFP

Sýrlenski stjórnarherinn handtók um 100 ungmenni í Jdaidet Artuz, skammt frá höfuðborginni Damaskus, í gær, fór með þau í nærliggjandi skóla þar sem þau voru pyntuð og sum þeirra síðan myrt. Önnur voru tekin af lífi um leið og komið var með þau í skólann. Alls hafa lík 43 ungmenna fundist.

Þetta segja mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights.

Óöldin og ofbeldið eykst í landinu dag frá degi. Í gær létust 163 í átökum í landinu, þar af 98 almennir borgarar.

Allsherjarþingið kemur saman

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mun koma saman á morgun og kjósa um ályktun sem gerð var að frumkvæði Arababandalagsins. Í ályktuninni felst að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, er hvattur til að fara frá völdum.

Ályktunin er fyrst og fremst táknræn, en hún er eigi að síður sögð táknmynd fyrir þá reiði og vonbrigði sem margar þjóðir finna fyrir vegna vanmáttar alþjóðasamfélagsins við að bregðast við ástandinu í Sýrlandi. Í ályktuninni er það harmað að vissar þjóðir hafi hindrað Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna við að álykta og fordæma ástandið. Þó að þjóðirnar séu ekki nefndar á nafn er ljóst að átt er við Rússa og Kínverja.

Halda hlífiskildi yfir Assad

Susan Rice, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, segir Kínverja og Rússa halda hlífiskildi yfir Assad, þrátt fyrir að það útheimti blóð almennings í Sýrlandi. Þjóðirnar tvær hafa í þrígang beitt neitunarvaldi sínu í Öryggisráðinu þegar kosið hefur verið um refsiaðgerðir og ályktanir gegn Sýrlandsstjórn.

„Þessar ákvarðanir þeirra eru teknar af æðstu embættismönnum landanna,“ segir Rice. „Þeir virðast vera einbeittir í því að vernda Assad, hvað sem það kostar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert