Dæmdur fyrir morð á kynþáttahatara

Chris Mahlungu, 29 ára, í dómssal í maí.
Chris Mahlungu, 29 ára, í dómssal í maí. AFP

 Svartur verkamaður í Suður-Afríku hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi í dag fyrir morð á formanni samtaka nýnasista í landinu, Eugene Terre'Blanche. Verkamaðurinn sagði manninn hafa nauðgað sér og smitað sig af HIV. Dómurinn fann enginn gögn sem studdu þann framburð.

Dómarinn John Horn sagði ekkert hafa komið fram við meðferð málsins sem gæfi tilefni til að milda dóminn.

Horn sagði verkamanninn Chris Mahlangu ekki hafa sýnt nein merki iðrunar en hann barði Terre'Blanche til bana á bóndabæ þess síðarnefnda í smábænum Ventersdorp 3. apríl árið 2010.

Dómarinn sagði Mahlangu hafa „gengið svo langt að saka Terre'Blanche um sódómíska hegðun“, sem hefði valdið fjölskyldu hans miklum sársauka.

Mahlangu hélt því fram að Terre'Blanche hefði nauðgað sér og smitað sig af HIV. Dómarinn segir ekkert hafa komið fram við meðferð málsins sem styddi þær ásakanir.

Piltur, sem var 18 ára er morðið var framið, var einnig dæmdur í tengslum við málið fyrir innbrot en var sýknaður af ákæru um morð og rán.

Horn hafnaði því einnig að Mahlangu hefði drepið manninn í sjálfsvörn en féllst á að hann hefði barið hann vegna deilna um laun.

Terre'Blanche, var 69 ára er hann var drepinn. Hann er einn stofnanda hægriöfga samtakanna  Afrikaner Resistance Movement (AWB) en samtökin berjast fyrir því að Suður-Afríka verði ríki hvíta mannsins.

Samtökin báru m.a. ábyrgð á sprengjuárás árið 1994  er kosningar fóru fram í landinu sem m.a. urðu svo til þess að aðskilnaðarstefnan var numin úr gildi.

Chris Mahlungu, 29 ára, í dómssal í maí.
Chris Mahlungu, 29 ára, í dómssal í maí. AFP
mbl.is