Þögðu um fjöldamorð Sovétmanna

Frá minningarathöfn um morðin í Katyn-skógi sem haldin var á …
Frá minningarathöfn um morðin í Katyn-skógi sem haldin var á síðasta ári. SERGEI KARPUKHIN

Skjöl sem gerð voru opinber í Bandaríkjunum í gær benda til þess að bandarísk stjórnvöld hafi vitað að Sovétmenn báru ábyrgð á fjöldamorðum á pólskum hermönnum í Katyn-skógi árið 1940.

Meira en 22 þúsund pólskir hermenn voru drepnir í Katyn-skógi árið 1940, en Stalín gaf fyrirskipun um morðin. Sovétmenn héldu því alltaf fram að þýskir nasistar hefðu staðið fyrir morðunum. Það var ekki fyrr en 1990 sem Rússar viðurkenndu opinberlega að Stalín hefði gefið fyrirskipun um morðin.

Í skjölunum sem voru gerð opinber í gær kemur fram að stjórnvöld í Bandaríkjunum fengu á þessum tíma upplýsingar um morðin og hverjir hefðu staðið að þeim. Franklin Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, hefði ákveðið að þegja um þessa vitneskju vegna þess að hann vildi ekki styggja Stalín, sem á þeim tíma var orðinn bandamaður Bandaríkjanna og Breta í stríðinu við Þjóðverja.

Í skjölunum kemur fram að bandarískir fangar hafi árið 1943 sent dulmálsskeyti til Washington þar sem kemur fram að þeir hafi séð fjölda líka í Katyn-skógi. Þýskir nasistar hefðu farið með hóp bandarískra og breskra fanga til að sýna þeim líkin. Þjóðverjar höfðu þá nýlega náð þessu svæði á sitt vald.

Skjölin sem birt voru í gær eru um þúsund blaðsíður. Þau varpa ljósi á hvað Bandaríkjamenn vissu um þessa atburði og hvenær þeim barst vitneskja um það sem gerðist. Að því er fram kemur í frétt frá AP fengu æðstu menn í Bandaríkjunum vitneskju um þetta mál á þessum tíma.

Allen Paul, sem rannsakað hefur ítarlega morðin í Katyn-skógi, segir að sum þessara skjala hafi ekki verið lögð fyrir bandaríska þingnefnd sem rannsakaði málið á árunum 1951-52. Það bendi til að bandarísk stjórnvöld hafi tekið þátt í að leyna því sem raunverulega gerðist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert