George McGovern látinn

George McGovern, fyrrverandi þingmaður og forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, er látinn, 90 ára að aldri. McGovern tapaði fyrir mótherja sínum, Richard Nixon, í forsetakosningunum árið 1972.

McGovern lést á sjúkrahúsi í Suður-Dakóta, umkringdur vinum og vandamönnum, snemma í morgun.

„Við erum ánægð að faðir okkar lifði löngu og góðu lífi. Hann barðist fyrir réttlæti og fátæka og var talsmaður milljóna friðarsinna,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans. McGovern var enn að halda ræður opinberlega á níræðisafmælinu í sumar.

McGovern var á þingi í þrjú kjörtímabil og er honum m.a. eignaður sá heiður að hafa fengið fleiri konur til að taka þátt í störfum Demókrataflokksins.

Nixon, sem hafði betur í kosningunum gegn McGovern, batt enda á Víetnamstríðið en ári síðar varð hann að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins.

Kosningabarátta McGoverns árið 1972 var aðallega byggð á starfi grasrótarhreyfingar sem í kjölfarið varð m.a. til þess að fleiri konur, minnihlutahópar og námsmenn fóru að styðja  flokkinn.

Bæði Bill og Hillary Clinton hófu afskipti sín af stjórnmálum með því að vinna að kosningabaráttu McGoverns.

McGovern naut þess í sinni kosningabaráttu að andstaða við Víetnamstríðið fór vaxandi en fékk að sama skapi þungt högg er varaforsetaefni hans, Thomas Eagleton, varð frá að hverfa eftir að upp komst að hann hafði verið lagður ítrekað inn á sjúkrahús vegna alvarlegs þunglyndis. Hafði hann m.a. fengið raflostsmeðferð við þunglyndi sínu.

McGovern vissi ekki af sjúkrasögu Eagletons er hann valdi hann sem varaforsetaefni. Þetta varð til þess að þaðan í frá er bakgrunnur frambjóðenda skoðaður ítarlega áður en þeir eru valdir.

McGovern tapaði kosningunum. Nixon fékk yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Hann þurfti hins vegar að segja af sér tveimur árum síðar.

George McGovern var fæddur 19. júlí árið 1922 í Avon, Suður-Dakóta. Hann gekk í flugherinn 19 ára gamall og fór í 35 ferðir til Evrópu sem flugmaður sprengiflugvélar í síðari heimsstyrjöldinni. Hann lauk doktorsprófi frá Northwestern-háskóla árið 1953.

Er hann lét af þingmennsku árið 1981 og gerðist hann meðal annars gestaprófessor við nokkra háskóla. Um tíma var hann sendiherra Sameinuðu þjóðanna í Róm. 

Árið 1994 lést dóttir hans, Terry. Hún barðist við áfengissýki og fraus í hel er hún missti meðvitund af neyslu í snjóskafli í Wisconsin.

McGovern skrifaði síðar bók um dóttur sína. Hann átti fjögur börn til viðbótar með eiginkonu sinni til 63 ára, Eleanor. Hún lést árið 2007.

Í aðsendri grein í Washington Post í síðasta mánuði sagðist McGovern hafa vilja sigra í kosningunum árið 1972 en að nú þegar hann líti til baka hafi ósigurinn verið kafli í langri, flókinni og hamingjusamri ævi. „Ég hef lært að maður getur ekki alltaf haft stjórn á úrslitunum.“

mbl.is