Erfitt að fella sitjandi forseta

Barack Obama náði endurkjöri þrátt fyrir að staða efnahagsmála væri …
Barack Obama náði endurkjöri þrátt fyrir að staða efnahagsmála væri slæm og atvinnuleysi mikið. JEWEL SAMAD

Á síðustu 100 árum hefur það aðeins gerst fjórum sinnum að forseti Bandaríkjanna sem sækist eftir endurkjöri sé felldur í kosningum. Það virðist því vera erfitt verkefni fyrir áskoranda í kosningum að fella sitjandi forseta.

Árið 1980 sóttist Jimmy Carter eftir endurkjöri sem forseti. Hann hafði orðið fyrir ýmsum áföllum í forsetatíð sinni. Bylting var gerð í Íran og í kjölfarið var ráðist inn í sendiráð Bandaríkjanna í Tehran og starfsfólki þess haldið sem gíslum mánuðum saman. Carter tók ákvörðun um að gera tilraun til að frelsa gíslana, en sú tilraun mistókst algerlega. Nokkrir hermenn fórust þegar herþyrla fórst í eyðimörkinni.

Þessi atburðarás var mikið pólitískt áfall fyrir Carter og hann náði aldrei vopnum sínum aftur. Þegar kjósendur gengu til kosninga sigraði Ronald Reagan örugglega.

Eftirmaður Reagan var George Bush, sem hafði áður verið varaforseti. Hann naut um tíma mikilla vinsælda eftir að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak til að hrekja Íraka frá Kuweit. Sá stuðningur var hins vegar horfinn þegar kom að kosningum.

Bush hafði í kosningabaráttu sinni 1988 lýst því yfir með afdráttarlausum hætti að hann myndi ekki hækka skatta. Hann sveik hins vegar þetta loforð eftir að hann varð forseti og kjósendur refsuðu honum fyrir það. Bill Clinton sigraði hann í forsetakosningum 1992.

Gerald Ford féll í kosningum árið 1976, en hann var aldrei kosinn forseti því að hann tók við eftir að Richard Nixon neyddist til að segja af sér embætti árið 1974.

Ef farið er lengra aftur í tímann þá tapaði Herbert Hoover forseti illa þegar hann reyndi að ná endurkjöri árið 1932, í miðri kreppunni. Franklin Roosevelt sigraði með yfirburðum.

William Taft forseti tapaði einnig illa í kosningum 1912 fyrir Woodrow Wilson þegar hann reyndi að ná endurkjöri. Þá varð klofningur í Repúblikanaflokknum því að Theodore Roosevelt, fyrrverandi forseti, bauð sig einnig fram.

Efnahagsmál hafa alltaf ráðið miklu um úrslit í forsetakosningum. Obama náði endurkjöri þrátt fyrir að staða efnahagsmála væri slæm og atvinnuleysi mikið. Fréttaskýrendur hafa sumir sagt í dag að til að sigra í kosningum í ár hefðu repúblikanar þurft að bjóða fram sterkari og meira afgerandi frambjóðanda en Mitt Romney, líkt og gerðist 1980 og 1992 þegar Ronald Reagan og Bill Clinton sigruðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina