Merkel hlakkar til áframhaldandi samstarfs

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

„Við höfum starfað saman undanfarin ár í anda vináttu og ég vona að þú sækir Þýskaland heim innan tíðar,“ skrifaði Angela Merkel, kanslari Þýskalands í bréfi sem hún sendi Barack Obama í morgun, þar sem hún óskar honum til hamingju með endurkjörið.

„Ég hef kunnað vel að meta fundi okkar og samræður um öll þau málefni sem tengjast samskiptum Þýskalands og Bandaríkjanna, ekki síst um hvernig fást eigi við efnahagslægðina,“ segir í bréfi Merkel.

Þar minnist hún á samvinnu landanna tveggja í Afganistan, þar sem Þjóðverjar eru með þriðja mesta heraflann á eftir Bandaríkjunum og Bretlandi og samvinnu þeirra við að sannfæra Írana um að láta af kjarnorkutilraunum sínum.

Hefur lagt áherslu á samskipti við Bandaríkin

„Ég hlakka til að halda þessu samstarfi áfram svo að þjóðir okkar geti staðið hlið við hlið og fengist við utanríkismál og efnahagslegar áskoranir sem vinaþjóðir og bandamenn,“ skrifar Merkel.

Merkel hefur lagt áherslu á góð samskipti við Bandaríkin í valdatíð sinni, en hún hefur alloft átt í ágreiningi við Obama vegna viðbragða bandarískra stjórnvalda við efnahagsvanda Evrópu. Obama hefur gagnrýnt niðurskurðinn í mörgum löndum Evrópu og hefur sagt að of mikill niðurskurður geti komið í veg fyrir bata hagkerfisins og ógnað efnahag heimsins.

Indverskur listamaður tjáði fögnuð sinn yfir endurkjöri Obama með því …
Indverskur listamaður tjáði fögnuð sinn yfir endurkjöri Obama með því að skapa listaverk í sand. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert