Obama segist bjartsýnn á framtíðina

Barack Obama forseti Bandaríkjanna ávarpaði stuðningsmenn sína í Chicago eftir að ljóst var að hann hefði sigrað Mitt Romney í kosningunum. Ræða hans, sem stóð í 25 mínútur, einkenndist af bjartsýni. Hann sagði að efnahagur landsins væri að batna og fram undan væru betri tíð.

Obama sigraði í kosningunum. Talningu er ekki lokið en samkvæmt nýjustu tölum fékk hann 49,6% atkvæða en Mitt Romney 48,9%. Obama hefur tryggt sér 303 kjörmenn, en 270 kjörmenn þarf til að sigra. Úrslit liggja ekki fyrir í Flórída, en þar er Obama með naumt forskot samkvæmt tölum sem birtar hafa verið. Sá sem sigrar í Flórída fær 29 kjörmenn til viðbótar.

Stuðningsmenn Obama í Chicago fögnuðu forsetanum innilega og kölluðu þegar hann steig á sviðið: „Fjögur ár í viðbót.“

„Ég hef aldrei verið eins bjartsýnn varðandi framtíðina og ég bið ykkur um að vera bjartsýn,“ sagði Obama í sigurræðu sinni. „Það besta á eftir að koma.“

„Efnahagur landsins er að batna og langvinn stríð eru að baki,“ sagði Obama og bætti við að hann hefði lært mikið á síðustu fjórum árum og sagði að þau samtöl sem hann hefði átt við þjóðina í kosningabaráttu sinni hefðu gert sig að betri forseta.

Obama sagði að þjóðin væri ekki eins klofin og ætla mætti af pólitískri umræðu í landinu. Þjóðin væri samstíga og það væri styrkur hennar. Hann sagðist ætla að vinna þvert á flokkslínur og sagðist hlakka til að eiga samtöl við Romney og heyra hans hugmyndir um það sem gera þyrfti.

Obama sagði í ræðu sinni frá ávarpi manns á kosningafundi í Ohio sem ætti 8 ára dóttur sem barist hefði við hvítblæði. Veikindi hennar hefðu reynt mikið á fjölskyldunnar og án nýrra laga um heilbrigðismál, sem Obama beitti sér fyrir, hefði hann ekki séð fram á annað en að missa allt. Obama sagði þetta sýna hvað heilbrigðislöggjöfin, sem oft hefur verið kölluð Obamacare, gerði fyrir venjulegt fólk í Bandaríkjunum.

Í kosningunum var líka kosið til þingsins. Demókratar halda meirihluta sínum í öldungadeildinni og Repúblikanar halda meirihluta sínum í fulltrúadeildinni. Obama þarf því áfram að semja við Repúblikana til að koma málum í gegnum þingið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka