Forsetasíða Romneys fór óvart á netið

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi repúblikana.
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi repúblikana. AFP

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi repúblikana í Bandaríkjunum, var tilbúinn með nýja vefsíðu í stað kosningasíðunnar ef hann næði kjöri sem forseti og var síðan birt fyrir mistök á netinu þrátt fyrir að sú yrði ekki raunin.

Samkvæmt frétt AFP virðist vefsíðan hafa verið uppi í nær heilan dag eftir að Barack Obama hafði verið lýstur sigurvegari kosninganna þar til hún var tekin niður en þar var gengið út frá því að Romney hefði sigrað kosningarnar.

Meðal þess sem birtist á vefsíðunni voru tilvitnanir í Romney þar sem hann sagðist spenntur fyrir framtíðarhorfum bandarísku þjóðarinnar og að forgangsmál hans yrði að tryggja fólki vinnu.

Þá var fólki boðið að mæta á innsetningarathöfn Romneys sem forseta 21. janúar næstkomandi auk tengla á umsóknir um störf hjá nýrri ríkisstjórn hans. Fram kemur í frétt AFP að ekki hafi fengist skýringar á mistökunum hjá starfsfólki Romneys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert