Obama: Ríkir verða að borga meira

Obama flytur boðskap sinn í efnahagsmálum í Hvíta húsinu í …
Obama flytur boðskap sinn í efnahagsmálum í Hvíta húsinu í kvöld. mbl.is/afp

Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi í Hvíta húsinu í kvöld, að pólitískt samkomulag tækist ekki um fjárlagakreppuna, sem yfirvofandi er um áramótin, nema fallist yrði á að hinir auðugu legðu meira til málanna með auknum sköttum.

Obama sagði að fulltrúadeild þingsins yrði að bregðast við svonefndu fjárlagaklifi með lögum sem fælu bæði í sér skattahækkanir og niðurskurð á útgjöldum hins opinbera, þar á meðal til varnarmála.

Á blaðamannafundi sem fram fór um svipað leyti lýsti forseti fulltrúadeildarinnar, repúblikaninn John Boehner, að ekki yrði á skattahækkanir fallist.

Náist ekki samkomulag um aðgerðir segja sérfræðingar kreppu yfirvofandi í Bandaríkjunum.

Obama sagðist ekki ofurseldur stefnumálum sínum varðandi skulda- og fjárlagavanda ríkisins; kvaðst opinn fyrir málamiðlunum en sagðist ekki fallast á tillögur sem fælu ekki bæði skattahækkanir og niðurskurð í sér.

Hann vitnaði til kosningabaráttunnar vegna forsetakosninganna og sagði stefnu sína hafa orðið ofan á. „Um þetta tókumst við á aftur og aftur. Á þriðjudagskvöld fundum við út, að meirihluti þjóðarinnar er sammála mér,“ sagði Obama.

„Við getum ekki stytt okkur leið til hagsældar. Sé það alvara okkar að draga úr hallanum verður að fara saman niðurskurður og aukinni tekjuöflun. Það þýðir að við verðum að biðja ríkustu Bandaríkjamennina að borga aðeins meira í skatta,“ sagði Obama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert