Kynlíf, eiturlyf og vírusvarnir

Myndir á heimasíðu Johns McAfees.
Myndir á heimasíðu Johns McAfees. AFP

Enn bólar ekkert á John McAfee, bandaríska auðmanninum og frumkvöðlinum sem sakaður er um morð í Mið-Ameríkuríkinu Belize. hann er talinn vera í felum í landinu.

McAfee er andstæðan við þá ímynd sem oftast er dregin upp af tölvunördum í kvikmyndum og fjölmiðlum: Hann er ekki hógvær einfari sem leysir þrautir eftir vinnu heldur hefur hann undanfarna tvo áratugi misnotað vímuefni, stundað óábyrgt kynlíf og  hættulegar jaðaríþróttir, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Telegraph.

John McAfee var hugbúnaðarsérfræðingur hjá Lockheed á níunda áratugnum. Seinna átti hann eftir að verða ríkur og frægur. Sjálfur segir hann það tilviljun eina að hann hafi fundið leið til að finna tölvuvírusa og verjast þeim en vírusvarnarforrit hans, sem hét eftir honum sjálfum, var nánast í hverri tölvu fáum mánuðum síðar. Nokkrum árum seinna var fyrirtæki hans orðið milljarða virði. McAfee naut virðingar innan tölvugeirans en margir telja að þessi frægð hafi orðið honum að falli.

En fleira kom til. Árið 1992 fór að bera á vírus sem kallaður var Michelangelo. McAfee sagði í viðtölum að vírus þessi ætti eftir að smita gríðarlega margar tölvur og uppi varð fótur og fit. En þessi spá hans reyndist ekki rétt og Michelangelo varð aldrei mjög skaðsamur vírus. Þó að fyrirtæki McAfees hafi hagnast gríðarlega þetta ár var orðspor hans sjálfs skemmt. 

Fyrirtækið fór á markað árið 1994 og þá var McAfee sjálfur látinn fara. Fékk hann 100 milljónir dala í kveðjuskyni. Hann fór að stunda annars konar viðskipti og stofnaði m.a. jógasetur í Colorado. Þar fór ýmislegt misjafnt fram, m.a. af kynferðislegum toga.

„Það mætti halda að hann væri gjafmildasti maður heims en hann fær eitthvað út úr þessu. Hann vildi alltaf vera miðpunktur athyglinnar,“ segir fyrrverandi nemandi jógasetursins. Sá segir að McAfee hafi verið umkringdur fátæku fólki sem reiddi sig á hann. Þannig gat hann stjórnað fólkinu. Hann er sagður hafa átt í sambandi við táningsstúlkur á jógasetrinu en fékk leið á þessu umhverfi og flutti til Nýju Mexíkó. Þar fór hann að stunda flug á svifflugum yfir eyðimörkinni.

Enn og aftur er McAfee nú í sviðsljósinu og nú fyrir morð. Hann flutti til Belize og opnaði þar rannsóknarstofu og sagðist vera að þróa öflugt sýklalyf. Hins vegar segir lögreglan að hann hafi átti í viðskiptum við glæpagengi og safnað skotvopnum. Nágranni segir að McAfee hafi ítrekað reynt að fá sig í kynsvall með vinum sínum.

Í maí á þessu ári var húsleit gerð hjá honum vegna gruns um að hann væri að framleiða fíkniefni.

McAfee segist hins vegar vera fórnarlamb og að lögreglan í Belize sé að koma á hann sök. Hann neitar að hafa myrt nágranna sinn, eins og lögreglan heldur fram.

mbl.is