Enn rignir sprengjum yfir Gazasvæðið

Ísraelsk bygging í Rishon Letzion, skammt frá Tel Aviv, sem ...
Ísraelsk bygging í Rishon Letzion, skammt frá Tel Aviv, sem varð fyrir eldflaugum Hamas-samtakanna. AFP

Á meðan viðræður um vopnahlé standa enn yfir, rigndi sprengjum yfir Gazasvæðið í gærkvöldi og í nótt, þrátt fyrir að bæði Ísraelssstjórn og Hamas-samtökin hafi lýst yfir vilja til að koma á vopnahléi. 

Nú hafa 136 Palestínumenn látið lífið í árásunum og fimm Ísraelar.

Alþjóðasamfélagið þrýstir á lausn hið snarasta. Meðal þeirra sem koma að málinu eru Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Mohamed Morsi Egyptalandsforseti. Búist var við því að tilkynnt yrði um vopnahlé í gærkvöldi, en af því varð ekki.

Sprengjum varpað á meira en 100 skotmörk

Ísraelsher tilkynnti í morgun um að sprengjum hefði verið varpað á meira en 100 skotmörk á Gazasvæðinu, fyrst og fremst hefði verið um skotsvæði eldflauga að ræða, en einnig hefði sprengjum verið varpað á ráðuneyti innanríkisöryggismála og á húsnæði lögreglu.

Hamas-samtökin skutu sex langdrægum eldflaugum að suðurhluta Ísraels í nótt, fjórar hittu skotmörk sín, en varnarkerfi Ísraelshers stöðvaði tvær þeirra. 

Koma þarf böndum á ástandið

Hillary Clinton kom til Ísraels í gærkvöldi til viðræðna við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra landsins. Clinton sagði að bandarísk stjórnvöld hefði hvergi kvikað frá áherslum sínum á að tryggja þyrfti öryggi Ísraels.

Hún lagði áherslu á að koma þyrfti böndum á ástandið og gaf til kynna að samkomulag um vopnahlé myndi ekki nást fyrr en hún hefði sótt Ramallah á Vesturbakkanum heim og farið til Kaíró til fundar við Morsi Egyptalandsforseta. 

„Næstu daga mun Bandaríkjastjórn vinna með Ísraelum og öðrum í þessum heimshluta í þeim tilgangi að auka öryggi og frið í Ísrael, bætir aðstæður þeirra sem búa á Gazasvæðinu og leiða til alhliða friðar á þessum slóðum,“ sagði Clinton í gærkvöldi.

Hún og Netanhjahú funduðu fram á nótt. Hann sagði Ísraela tilbúna til langtíma lausnar á málinu, ef Hamas-liðar létu af árásum sínum. „Ef það er einhver möguleiki á að leysa þessa deilu til langframa á diplómatískan hátt, þá kjósum við það,“ sagði Netanjahú við Clinton. „En ef sú verður ekki raunin, þá er ég viss um að þið skiljið að Ísrael mun gera allar þær ráðstafanir sem þarf til þess að vernda þjóð sína.“

Háttsettur yfirmaður í Hamas sagði við AFP-fréttastofuna í morgun að lykilatriði í öllum samningum væri að Ísraelar myndu létta á herkví sinni um Gaza. 

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP
mbl.is
Stofuskápur úr furu
Skápur í sumarbúðstaðinn til sölu, hæð 2 m, breidd 0,71 m, dýpt 0,35 m. Kr: 10,...
Kolaportið alltaf gott veður!
Góða veðrið og góða skapið er í KOLAPORTINU!...
STOFUSKÁPUR
TIL SÖLU NÝLEGUR STOFUSKÁPUR ( HVÍTLAKKAÐUR) MEÐ GLERHILLUM. STÆRÐ: B=78, D=41...
Ég skal selja fyrir þig!
Fasteignir óskast á söluskrá....