Funda í dag um björgun Grikklands

AFP

Fjármálaráðherrar evruríkjanna koma saman til fundar síðar í dag í þriðja skiptið á tveimur vikum til þess að ræða hvort veita eigi Grikklandi næsta hluta björgunarpakka fyrir landið vegna efnahagserfiðleika þess.

Fram kemur í frétt AFP að Grikkir hafi beðið eftir því að fá næsta hluta björgunarpakkans síðan í júní en hann hljóðar upp á 31,2 milljarða evra og er hluti af heildarpakka upp á 130 milljarða evra sem ákveðið var að veita Grikkjum fyrr á þessu ári til viðbótar við fyrri aðstoð.

Ríkisstjórn Grikklands, undir forystu Antonis Samaras forsætisráðherra, hrinti í framkvæmd enn frekari niðurskurði fyrr í þessum mánuði í samræmi við skilyrði Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir frekari aðstoð.

Í kjölfarið sendi Samaras frá sér yfirlýsingu um að Grikkir hefðu nú gert það sem krafist hefði verið af þeim og að frekari tafir á því að veita þeim næsta hluta björgunarpakkans væru ekki réttlætanlegar. Fái þeir hann ekki er talið næsta víst að Grikkland lendi í greiðslufalli.

mbl.is