Brutu ekki reglur ESB

Mynd/DataCell

Visa Europe og önnur kortafyrirtæki brutu ekki samkeppnislög Evrópusambandsins með því að loka greiðslugátt sem notuð var til að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks, að sögn talsmanns framkvæmdastjórnar ESB.

DataCell, sem hélt utan um greiðslugáttina, kvartaði yfir ákvörðun kortafyrirtækjanna,   Visa Europe, MasterCard Europe og American Express Co, til framkvæmdastjórnar ESB, eftir að lokað var fyrir gáttina í desember 2010, samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar. 

Fara yfir gögn DataCell áður en lokaákvörðun verður tekin

Að sögn talsmanns framkvæmdastjórnarinnar þykir ekki þörf á að rannsaka málið frekar miðað við þau gögn sem eru fyrir hendi. Þau gögn bendi ekki til þess að samkeppnislög hafi verið brotin. Hins vegar sé ljóst að farið verði yfir nýjar upplýsingar frá DataCell áður en lokaákvörðun verði tekin.

Hér á Íslandi dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur DataCell í vil en Valitor áfrýjaði til Hæstaréttar. Niðurstaða Hæstaréttar liggur ekki fyrir í málinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur sagði að Valitor hefði hlotið að vera ljós tilgangur DataCell með notkun greiðslugáttar sem sótt var um, þ.e. að safna fjárframlögum fyrir WikiLeaks. Ekki var fallist á að rifta hafi mátt samningnum vegna brostinna eða rangra forsenda.

Á vefnum TechEye.net segir í frétt frá 21. nóvember að Pírataflokkurinn hafi unnið stórsigur á Evrópuþinginu eftir að flokkurinn tryggði setningu reglugerðar sem kemur í veg fyrir að kortafyrirtækin geti lokað greiðslugáttum líkt og gert var í tilviki WikiLeaks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert