Unnið að breyttum fjölmiðlalögum

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Vinna er þegar hafin að frumvarpi um breytt fjölmiðlalög í Bretlandi eftir að skýrsla Leveson-nefndarinnar var opinberuð í gær. Þar kom meðal annars fram að samskipti fjölmiðla og stjórnmálamanna hefðu á köflum verið of náin og að fjölmiðlar þyrftu að setja sér eigin starfsreglur, sem ættu sér stoð í lögum.

Ríkisstjórn Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, er klofin í afstöðu sinni til þess hvort og hvernig slíkum lögum ætti að vera háttað. Sjálfur hefur Cameron sagt að lagasetningar gætu ógnað frelsi fjölmiðla, en Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, samstarfsflokksins í ríkisstjórninni, segir lagasetningu nauðsynlega til að tryggja sjálfstæði fjölmiðlanna.

Meðal þess sem lagt var til í skýrslu Leveson-nefndarinnar var að sett yrði á laggirnar sjálfstæð nefnd, sem myndi taka við kvörtunum um fjölmiðlaumfjallanir og hefði umboð til að sekta fjölmiðla um allt að eina milljón punda. Nauðsynlegt væri að slík nefnd ætti sér lagalega stoð, segir í skýrslunni.

Einkum var sjónum beint að þeim vinnubrögðum sem fjölmiðlar í eigu Ruperts Murdochs hafa orðið uppvísir að, þ. á m. símhleranir og mútur.

Við vinnslu skýrslunnar var meðal annars rætt við fjölda frægðarmenna sem segjast hafa farið halloka út úr samskiptum sínum við bresku pressuna. Þeirra á meðal eru rithöfundurinn J.K. Rowling, höfundur Harry Potter-bókanna, og leikararnir Sienna Miller og Hugh Grant. Sá síðastnefndi gagnrýnir Cameron fyrir afstöðu sína.

Frétt mbl.is: Hver á að vakta varðhundana?

Leikarinn Hugh Grant gagnrýnir Cameron fyrir afstöðu sína.
Leikarinn Hugh Grant gagnrýnir Cameron fyrir afstöðu sína. AFP
mbl.is