Minntust árásarinnar á Pearl Harbor

Bandarískir landgönguliðar standa vörð við minningarathöfn um árásina á Pearl …
Bandarískir landgönguliðar standa vörð við minningarathöfn um árásina á Pearl Harbor í dag. Minnismerkið um árásina er í bakgrunni en undir því er flakið af orrustuskipinu USS Arizona á hafsbotni. AFP

Bandaríkjamenn minntust þess í dag að 71 ár er liðið frá því að Japanir réðust á bandarísku flotahöfnina í Pearl Harbor á Hawaii árið 1941 með þeim afleiðingum að þúsundir létu lífið auk þess sem gríðarleg eyðilegging átti sér stað.

Meðal annars tókst Japönum að sökkva nokkrum stórum herskipum Bandaríkjamanna sem lágu fyrir akkeri og þar á meðal orrustuskipinu USS Arizona sem í dag er minnisvarði um árásina, en hún varð til þess að Bandaríkin urðu beinir þátttakendur í síðari heimsstyrjöldinni.

Rúmlega tvö þúsund manns voru samankomin í dag í Pearl Harbor til þess að minnast atburðarins samkvæmt fréttvef CBS sjónvarpsstöðvarinnar og þar á meðal um 50 manns sem lifðu árásina af, en samtals létust 2.439 manns í henni og þar af 2.390 sjóliðar og hermenn og 49 óbreyttir borgarar.

Frétt CBS

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert