Hamstra birgðir fyrir heimsendi

Heimsendaspá Maja er Jay Blevins ekki ofarlega í huga - en verði hún að veruleika er hann og fjölskylda hans heldur betur tilbúin.

Í kjallaranum á huggulegu heimili þeirra í smábænum Shenandoah Valley í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Washington, er vel út búið búr, stútfullt af niðursoðnum matvælum, vatni á brúsum og lyfjum og sárabindum.

„Við getum lifað um hríð á þessu öllu saman,“ segir Blevins.

Í garði þeirra hjóna vaxa ber og aðrir ávextir og tunnur af vatni standa undir þakskegginu. Myndarlegt vopnabúr er svo læst inni, en þar má finna byssur af ýmsum toga, s.s. hríðskotariffla. Þá mætti nota til að veiða sér í matinn eða til að hræða þjófa burt.

Og ef einhver gæti þurft að flýja, eiga allir fjölskyldumeðlimir bakpoka sem er útbúinn til langferðar. Í þeim eru m.a. sverð og leikföng til að stytta börnunum stundirnar.

„Ég held að við höfum ekki eytt svo miklum peningum í þetta. Ég held að við séum ekki að ganga of langt,“ segir Blevins, 35 ára þriggja barna faðir. Hann starfar sem fjármálaráðgjafi og er fyrrverandi lögreglustjóri og sérsveitarmaður.

Rétt eins og góð trygging 

„Við lifum hefðbundnu lífi og svo höfum við þetta svona til hliðar. Þetta er rétt eins og góð trygging. Ef við þurfum á því að halda, munum við nota þetta.“ 

Blevins er það sem kallað er „undirbúinn“. Hann er einn af mörgum Bandaríkjamönnum sem hafa undirbúið sig fyrir það ef allt fer á versta veg, hvort sem það eru efnahagslegar hörmungar, skyndilegar loftslagsbreytingar, hryðjuverk eða náttúruhamfarir.

Þessi stækkandi hópur fólks sem er „undirbúinn“ heldur tengslum í gegnum netið þar sem hann deilir þekkingu sinni og reynslu.

Sumir úr hópnum hafa komið fram opinberlega, t.d. Blevins sem er viðfangsefni þáttar sem nú er sýndur á sjónvarpsstöðinni National Geographic.

„Þetta er eitthvað sem hefur orðið smám saman til hér í Bandaríkjunum og sífellt fleiri vilja taka þátt í,“ segir Mike Porenta, sem er í sérstökum samtökum þeirra sem eru „undirbúnir“. Samtökin skipuleggja starfsemi sína á netinu og ná þau um öll Bandaríkin.

Þessi hópur fólks, sem vill vera undirbúinn, segist í raun vera að fara eftir ráðleggingum alríkisstjórnarinnar sem hafi mælst til þess að fólk taki sig saman og hafi aðgengilega nauðsynlega hluti og mat til að lifa af í þrjá daga.

En hvers vegna að láta það nægja? Hægt er að versla hvað eina á netinu til að geta lifað af í heilt ár án þess að þurfa utanaðkomandi aðstoð. Þá er hægt að búa til neðanjarðarbyrgi sem eiga að þola kjarnorkusprengjur og efnavopnaárásir.

Og sífellt fleiri selja slík byrgi eða aðgang að þeim ef allt fer á versta veg. Enda markaðurinn stækkandi. Í Kaliforníu er t.d. hægt að kaupa byrgi fyrir eina fjölskyldu en einnig pláss í byrgi sem er hannað fyrir 1.000 manns. Allt er innifalið að sögn Vivos Group sem selur þau.

„Það eina sem fólk þarf að gera er að mæta á staðinn áður en byrginu verður lokað til að tryggja öryggi,“ segir í auglýsingu fyrir byrgin.

Önnur fyrirtæki einbeita sér að vistum fyrir fólk. 1-800-Prepare.com selur neyðarpakka fyrir fjölskyldur, einstaklinga, hunda og ketti. Eftir fellibylinn Sandy jókst salan á slíkum pökkum tífalt.

„Dæmigerður viðskiptavinur okkar er venjulegur Bandaríkjamaður,“ segir eigandi fyrirtækisins, slökkviliðsmaðurinn Paul Faust.

James Stevens, 73 ára, er kallaður Herra tilbúinn. Hann býr á afskekktum stað í San Antonio, Texas. Hann á vistir til fimm ára og hefur verið að undirbúa sig fyrir hörmungar frá árinu 1974.

„Maður undirbýr sig í takt við þann lífsstíl sem maður vill geta haldið þegar aðstæðurnar verða óstjórnlegar,“ segir Stevens sem hefur skrifað handbók um slíkan undirbúning og selt um 800 þúsund eintök af henni.

En hvað um heimsendaspá Majanna?

„Hún er það síðasta sem ég er að hafa áhyggjur af,“ segir Stevens. „Ég hef meiri áhyggjur af efnahagnum og pólitíkinni.“

Flestir þeir sem hafa sig í frammi meðal þessa vel undirbúna fólks eru karlmenn en þó eru einnig hagsýnar húsmæður að gefa góð ráð. Ein þeirra er Lisa Bedford sem bloggar um sinn undirbúning á bloggsíðunni TheSurvivalMom.com.

„Við förum að undirbúa barneignir löngu fyrir getnað,“ segir Bedford sem er með birgðir af hnetusmjöri og chili á heimilinu auk margra annarra nytsamlegra hluta.

„Ég vil að fjölskyldan verði ekki berskjölduð, hvað sem gerist,“ segir hún. „Það borgar sig að vera undirbúinn.“

Móðir Blevins veit sitt hvað um að lifa af. Hún ólst upp í Víetnam í blóðugu stríði. Hún segir að það sé fín lína á milli undirbúnings og sjúklegrar tortryggni.

En Belvins segist hafa ástæðu til að undirbúa sig vel. Ýmsar hörmungar hafi gengið yfir Bandaríkin, m.a. hryðjuverkaógn eftir 11. september.

„Sem eiginmaður og faðir vil ég að fjölskyldan mín sé við öllu búin, sama á hverju mun dynja.“

Jay Blevins ásamt eiginkonunni Holly Blevins og börnunum Samuel Benjamin, …
Jay Blevins ásamt eiginkonunni Holly Blevins og börnunum Samuel Benjamin, Ellianu Grace og Evangeline Joy fyrir utan heimili sitt. AFP
Holly Blevins heldur á eplasósu í velútbúnu búrinu.
Holly Blevins heldur á eplasósu í velútbúnu búrinu. AFP
Skotvopn í vopnabúri Belvins. Þar má m.a. finna 15 riffla.
Skotvopn í vopnabúri Belvins. Þar má m.a. finna 15 riffla. AFP
Jay Blevins gengur um garðinn með bakboka sem inniheldur neyðarbúnað.
Jay Blevins gengur um garðinn með bakboka sem inniheldur neyðarbúnað. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert