Romney vildi ekki verða forseti

Mitt Romney.
Mitt Romney. AFP

Enginn hafði hafði minni áhuga á því að gerast forseti Bandaríkjanna en Mitt Romney. Þetta sagði Tagg Romney, sonur forsetaframbjóðandans Mitt Romney, í viðtali sem birtist í bandaríska dagblaðinu Boston Globe í dag.

Í viðtalinu útskýrir Tagg að faðir hans hafi alveg frá upphafi verið tregur til að bjóða sig fram til forseta. Sem dæmi þá nefnir hann að Mitt Romney hafi sagt fjölskyldu sinni frá því, eftir að hann tapaði í forvali Repúblikanaflokksins árið 2008, að hann myndi ekki bjóða sig fram aftur til forseta, hinsvegar hafi Tagg Romney sjálfur og Ann Romney, eiginkona Mitt Romney sannfært hann um að skipta um skoðun og bjóða sig fram aftur í kosningunum í ár.

„Hann hafði minni áhuga á því að gerast forseti en nokkur annar maður sem ég hef kynnst á ævinni. Hann hafði engan áhuga ... á því að bjóða sig fram,“ sagði Tagg Romney í viðtalinu og bætti við: „Ef hann hefði getað fundið einhvern annan til að skipta við sig ... þá hefði glaður stigið til hliðar.“

Þá sagði Tagg Romney einnig frá því í viðtalinu að faðir hans væri afskaplega hlédrægur maður sem elskaði fjölskyldu sína heitt og vildi helst eyða tíma sínum með henni.

mbl.is

Bloggað um fréttina