Fagnar nýju ári á Suðurskautinu

Vilborg Arna Gissurardóttir með sleðann í eftirdragi.
Vilborg Arna Gissurardóttir með sleðann í eftirdragi.

Á síðustu dögum gamla ársins hefur íslenska Suðurpólsfaranum Vilborgu Örnu Gissurardóttur sóst ferðin hratt og vel.  Nú þegar tveir þriðju hlutar leiðarinnar eru að baki, blasa við Vilborgu miklir rifskaflar þvert á göngustefnu hennar, sem torvelda för en engu að síður hefur henni tekist að ganga allt að 30 km á dag. Vilborg er enda búin að venjast aðstæðum og sleðinn sem hún dregur á eftir sér og ber allan hennar kost, léttist eftir því sem nær pólnum dregur.  Vilborg er komin inn á 87. breiddargráðu, á um 330 km eftir og áætlar að vera komin á pólinn eftir 13 daga.

Fyrst Íslendinga til að fara ein á Suðurpólinn

Vilborg er fyrsti Íslendingurinn sem leggur einsamall á Suðurpólinn, en þrátt fyrir þann eindregna ásetning að ferðast ein alla leið, var bandarískur pólfari á vegi hennar á aðfangadag. Þar var á ferðinni Aaron Lindsau sem hafði á orði í bloggfærslu sinni að þarna hefði hann hitt sjálfan jólasveininn og átti þar við rauðklædda Íslendinginn sem þarna tók fram úr honum.

Þjáðist af vökvaskorti en hefur jafnað sig

Vilborg Arna ber höfuðið hátt á leið sinni á Suðurpólinn. Hún kveðst þó hafa þjáðst af vökvaskorti síðustu daga en hefur að eigin sögn náð fullum krafti að nýju eins og vel sést á því hve hratt  og glöð hún gengur inní nýtt ár.

Á meðan á göngunni stendur safnar Vilborg Arna áheitum til styrktar Líf styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans – og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908 1515 (1500 kr) eða með frjálsum framlögum á vefsíðunni www.lifsspor.is

Vilborg Arna Gissurardóttir á göngu sinni.
Vilborg Arna Gissurardóttir á göngu sinni.
Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari.
Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert