Lestarfarmar af lesbíum í tæknisæðingu

Á meðan Frakkar undirbúa fjöldamótmæli um helgina vegna frumvarps um hjónabönd samkynhneigðra og ættleiðingar þeirra, hefur nágrannaríkið Belgía orðið skjól franskra lesbía sem flykkjast þangað í þúsunda vís til að gangast undir tæknifrjóvgun sem er ólögleg í heimalandinu.

Á hverju ári eignast lesbísk pör um 2.000 börn sem getin eru með gjafasæði í Belgíu.

„Við höfum séð stórkostlega aukningu í eftirspurninni undanfarin þrjú ár. Þetta er að spyrjast út í Frakklandi og skjólstæðingar okkar dreifa þessum upplýsingum til annarra í sömu stöðu,“ segir Michel Dubois, prófessor við háskólasjúkrahúsið í Liege, í suðurhluta Belgíu.

Börnin sem getin eru  með þessum hætti hafa hlotið gælunafn, Thalys-börnin, eftir hraðlestinni sem fer milli Parísar og Brussel. Með þessari lest fara mæðurnar fram og til baka, oft í mörg ár, áður en þær fá þann draum sinn uppfylltan að verða foreldrar.

Franski Sósíalistaflokkurinn hefur í hyggju að auka réttindi samkynhneigðra til hjónabanda og ættleiðinga og fellur það í misjafnan jarðveg meðal Frakka. Mótmæli hafa verið víða - en einnig samkomur til stuðnings frumvarpinu sem þetta heimilar. Mótmælin eru m.a. leidd af kaþólskum og íslömskum leiðtogum í landinu. Enn einn mótmælafundurinn er skipulagður á sunnudag.

Stjórnvöld hafa nú samþykkt að fella úr gildi grein í frumvarpinu sem heimilaði tæknisæðingu fyrir samkynhneigð pör. Er þetta gert til að koma til móts við þá sem andsnúnir eru breytingunum á lögunum.

Samkynhneigðir hafa getað gift sig í Belgíu frá árinu 2003 og eru Belgar sagðir stoltir af því að tryggja vandlega réttindi samkynhneigðra, umfram flestar þjóðir.

Landið hefur orðið Mekka lesbía en í 18 læknamiðstöðvum víðs vegar um landið er hægt að fara í tæknisæðingu.

„Franskar mæður voru 80% þeirra 833 tæknisæðinga sem framkvæmdar voru á síðasta ári,“ segir Dubois um sjúkrahúsið sem hann vinnur á.

Á stærsta sjúkrahúsinu í Brussel er eftirspurnin svo mikil að aðeins er hægt að panta tíma í tvo daga á ári.

Þær frönsku lesbíur sem komast í viðtal eiga oft fyrir höndum langt og strangt ferli áður en þær verða foreldrar.

„Þetta var erfitt en við gleymdum því öllu þegar Achilles fæddist,“ segir Katell Thepault, ljósmóðir í Nantes í vesturhluta Frakklands.  

„Þetta tók meira en þrjú ár og margar ferðir til og frá Brussel,“ segir Thepault. Hún segir að þessi miklu ferðalög hafi auðvitað haft áhrif á einkalíf sitt og starf og það sama eigi við um maka hennar.

Hún segir aðgerðirnar líka mjög dýrar en hún og maki hennar fóru í níu aðgerðir.

Einföld sæðing með gjafasæði kostar á bilinu 350-500 evrur og tæknifrjóvgun umtalsvert meira.

Marie, sem einnig sótti þjónustu til Belgíu, segir það hræsni að franskar konur þurfi að fara til Belgíu í þessum erindagjörðum. Gagnkynhneigð pör geti fengið sambærilega þjónustu niðurgreidda í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert