Konur greiði ekki meira en karlar fyrir klippinguna

Frá hárgreiðslustofu. Jafnréttisráð Danmerkur hefur úrskurðað að sama gjaldskrá eigi …
Frá hárgreiðslustofu. Jafnréttisráð Danmerkur hefur úrskurðað að sama gjaldskrá eigi að gilda fyrir klippingar kvenna og karla. AFP

Jafnréttisráð Danmerkur úrskurðaði í síðasta mánuði að hárgreiðslustofum væri óheimilt að taka hærra verð fyrir hárskurð kvenna en karla. Stofu nokkurri, sem hafði auglýst hærra verð á dömuklippingum, var gert að greiða konu bætur vegna þessa.

Konan hafði kært verðlagninguna til jafnréttisráðsins.

Fagfélag hárgreiðslufólks og rakara segir þessa ákvörðun fáránlega. „Það tekur einfaldlega miklu lengri tíma að klippa konur,“ segir Connie Mikkelsen formaður félags sjálfstætt starfandi hárgreiðslufólks og snyrtifræðinga. Úrskurðinum var áfrýjað og því verður ákveðið í réttarsal hvort hárgreiðslustofum beri að finna aðra leið til að verðleggja þjónustu sína, til dæmis á grundvelli tíma eða hvers eðlis þjónustan sé. 

„Að notast við tímamælingar myndi leiða til umræðu um hárlengd; hvað er millisítt hár, hvað er sítt hár og það myndi leiða til deilna við viðskiptavinina,“ segir Mikkelsen í samtali við Jyllands-Posten.

Konur greiða oft meira en karlar

Málið hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Í pistli sínum í The Guardian í gær bendir blaðakonan Bim Adewumni á að konur greiða oft meira en karlar fyrir sambærilega vöru. Hún nefnir fatnað, svitalyktareyði og hreinsun á fatnaði í þessu sambandi. 

„En við búum í heimi þar sem staðallinn er sá að konur eru með lengra hár en karlar. Heimsóknir mínar á hárgreiðslustofur hafa aldrei tekið minna en klukkustund og enginn karl sem ég þekki hefur verið lengur í stólnum á hárgreiðslustofu en hálftíma,“ skrifar Adewumni.

mbl.is