Lög gegn samkynhneigðum í Rússlandi

Neðri deild rússneska þingsins, Dúma, kaus í dag með því að sett verði lögbann við því að „samkynhneigðum áróðri“ verði beint að ungum börnum. Áróður gæti samkvæmt skilgreiningu m.a. falist í því að samkynhneigðir kyssist á almannafæri. 

Stuðningsmenn réttinda samkynhneigðra mótmæltu fyrir framan þinghúsið í Moskvu í dag og stóð til að blásið yrði til n.k. kossamaraþons en upp úr því flosnaði þegar andstæðingar réttinda samkynhneigðra réðust á mótmælendurna. Nokkrir voru handteknir í átökunum.

Frumvarpið fór í gegnum fyrstu umræðu á þinginu í dag en tvær umræður til viðbótar eru eftir áður en það verður sent til efri deildar þingsins. Áður en það verður að lögum þarf Vladimír Pútín jafnframt að samþykkja það. Taki lögin gildi gæti það þýtt að ólöglegt verði að mæla fyrir réttindum samkynhneigðra.

mbl.is