Tölvuþrjótar ráðast á fjölmiðla

Fullyrt er í bandaríska stórblaðinu The Wall Street Journal í dag að kínverskir tölvuþrjótar hafi brotist inn í tölvukerfi blaðsins.  Þetta er annað tilvikið af þessu tagi á skömmum tíma, en í gær greindi The New York Times frá svipuðu tilviki og telur að árásirnar hafi hafist í tengslum við umfjöllun blaðsins um að fjölskylda kínverska forsætisráðherrans Wens Jiabaos hafi safnað miklum auðævum.

Einnig var brotist inn í tölvukerfi Bloomberg fréttastofunnar og talið er að Kínverjar séu þar að verki.

Í frétt The Wall Street Journal í dag segir að tölvuárásirnar séu augljóslega gerðar í þeim tilgangi að fylgjast grannt með umfjöllun blaðsins um málefni sem tengist Kína. Þar er sagt að njósnir Kínverja í bandarískum fjölmiðlaheimi séu orðnar útbreiddar. EKki kemur fram hvenær brotist var inn í tölvukerfið, en í blaðinu segir að öryggisvarnir þess hafi verið stórefldar.

„Við hyggjumst halda áfram með þá ágengu og sjálfstæðu blaðamennsku sem við höfum ástundað hingað til,“ segir í blaðinu.

Notuðu aðferðir hersins

The New York Times greindi frá því í gær að kínverskir tölvuþrjótar hefðu brotist inn í tölvukerfi blaðsins fyrir um fjórum mánuðum og meðal annars stolið lykilorðum blaðamanna. Brotist var inn í tölvupósthólf yfirmanns skrifstofu blaðsins í Sjanghæ. Í  blaðinu sagði að þrjótarnir hefðu notað sömu aðferðir og kínverski herinn og að árásirnar hefðu verið gerðar frá sama háskóla og árásirnar þegar kínverski herinn braust inn í tölvukerfi Bandaríkjahers.

Sagðir hafa brotist inn í tölvukerfi Bloomberg

Í The NY Times er ennfremur staðhæft að kínversku þrjótarnir hafi brotist inn í tölvukerfi Bloomberg fréttastofunnar eftir að hún hafði flutt fréttir af auðlegð ættingja Xi Jinping, leiðtoga Kína.

Kínversk yfirvöld neita þessu staðfastlega og segja þessar fullyrðingar úr lausu lofti gripnar. „Kínverjar eru líka fórnarlömb tölvuþrjóta,“ segir Hong Lei, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert