Gleði og óvissa í Venesúela

Hugo Chavez kom mörgum á óvart þegar hann sneri heim til Venesúela í dag eftir tveggja mánaða dvöl á Kúbu í kjölfar uppskurðar. Krabbameinsmeðferðin heldur áfram á Carlos Arvelo-sjúkrahúsinu í Caracas og þangað flykktust stuðningsmenn hans í dag til að fagna honum, en framtíðin er óljós.

Ekki er ljóst hvort og þá hvenær Chavez mun sverja embættiseið í hæstarétti til að byrja formlega kjörtímabilið eftir að hann vann kosningarnar í lok síðasta árs, en því var frestað vegna krabbameinsmeðferðar hans á Kúbu.

Afp hefur eftir heimildarmanni að hæstiréttur landsins sé tilbúinn og bíði eftir fyrirmælum frá Chavez og læknum hans. Athöfnin þarf ekki að vera opinber og gæti mögulega farið fram á sjúkrahúsinu sé Chavez enn rúmfastur.

Forsetinn hefur gengist undir fjórar skurðaðgerðir síðan á miðju ári 2011 og var lagður strax inn við komuna til Venesúela í dag. Hann tilkynnti endurkomu sína á Twitter, þar sem hann hefur um fjórar milljónir fylgjenda, en komu hans á flugvöllinn í Caracas var ekki sjónvarpað, sem er óvenjulegt enda hefur Chavez alla tíð baðað sig í sviðsljósinu.

Íbúar Venesúela hafa hvorki séð forseta sinn né heyrt síðan hann fór til Kúbu 10. desember. Á föstudag voru þó í fyrsta sinn birtar nýjar myndir af honum brosandi. Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja erfitt fyrir hann að tala þar sem hann sé með slöngu í öndunarveginum vegna sýkingar eftir aðgerð. 

Aldrei hefur verið gefið upp hvers konar krabbameini Chavez þjáist af og hefur upplýsingagjöf stjórnvalda um líðan hans eftir síðustu aðgerðina verið afar óljós, sem kveikt hefur orðróm um að heilsa hans sé mun verri en gefið er í skyn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert