Metfjöldi innflytjenda til Svíþjóðar

Innflytjendur í Malmö mótmæla hatursmorði á 15 ára gömlum dreng.
Innflytjendur í Malmö mótmæla hatursmorði á 15 ára gömlum dreng. AFP

Aldrei hafa jafnamargir innflytjendur komið til Svíþjóðar á einu ári eins og í fyrra. Munar þar mest um tæplega 5.000 Sýrlendinga sem komu til landsins á flótta undan blóðugum átökum á eigin heimaslóðum. Allt í allt fluttu 82.597 útlendingar til Svíþjóðar árið 2012 samkvæmt hagtölum sem birtar voru í dag.

Þetta er 9% aukning frá árinu 2011. Um 70% af mannfjöldaaukningu í Svíþjóð á árinu má rekja til innflytjenda, en einnig til 20.000 Svía sem sneru aftur heim eftir búsetu erlendis. Alls búa nú 9,5 milljónir manna í Svíþjóð.

Sýrlendingar voru fjölmennastir innflytjenda, 4.730, og leituðu þrefalt fleiri þeirra til Svíþjóðar en árið á undan. Næstfjölmennastir voru afganskir innflytjendur, 4.673 talsins, og til Svíþjóðar leitaði líka 4.541 Sómali. Samsetningin hefur því breyst nokkuð milli ára því 2011 komu fjölmennustu innflytjendahóparnir frá Írak, Póllandi og Afganistan.

Sænska hagstofan segir að um 60% innflytjendanna séu karlmenn. Um er að ræða ungt fólk og er meðalaldur kvenna 27 ár en karla 29 ár.

Málefni innflytjanda eru afar umdeild þessa dagana í Svíþjóð. Innflytjendaráðherrann Tobias Billström sagði á dögunum að Svíar hleypi of mörgum innflytjendum til landsins og í sama streng tók leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Stefan Löfven. Báðir lögðu þó áherslu á að þeir vilji að Svíþjóð verði áfram opið hælisleitendum.

Hægriflokkur Svíþjóðardemókrata hefur sótt sér fylgi meðal þjóðernissinna og andstæðinga innflytjendastefnu stjórnvalda og hefur stuðningur við þá aukist, upp í 8,5%, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem birt var á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert