Öndunarerfiðleikar þjaka Chavez

Í Caracas er almenningi annt um heilsu Hugo Chavez.
Í Caracas er almenningi annt um heilsu Hugo Chavez. mbl.is/afp

Öndunarerfiðleikar þjaka Hugo Chavez, forseti Venesúela, í framhaldi af meðferð við krabbameini á Kúbu. Þaðan kom hann heim til Caracas sl. mánudag.

Ernesto Villegas upplýsingaráðherra segir að Chavez sé í áframhaldandi meðferð á hersjúkrahúsi í Caracas vegna öndunarvandans. 

Er þetta fyrsta tilkynningin sem gefin er út um ástand Chavez frá því hann sneri heim frá Kúbu. Þangað hélt hann 11. desember til skurðaðgerðar vegna krabbameins. Var það fjórða aðgerðin sem gerð er á honum á hálfu öðru ári vegna krabbans.

Hermt er að Chavez hafi hlotið alvarlega sýkingu í öndunarvegi í framhaldi af skurðaðgerðinni síðustu. Villegas sagði í dag að engin merki um bata af sýkingunni væru sýnileg enn og því væri forsetinn áfram til meðferðar á sjúkrahúsi.

Chavez var endurkjörinn forseti í október sl. en embættistökuathöfn hefur ekki farið fram vegna veikinda hans. Ríkja efasemdir um að hann muni öðlast heilsu til að snúa aftur til virkrar þátttöku í stjórnmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert