Fiskur undir smásjánni vegna fölsunar

Hrossakjötshneykslið hefur beint sjónum að víðtækara svindli við merkingu matvæla. Segir franska blaðið Le Figaro að í kjölfar þess sé fiskur undir smásjánni, ekki síst eftir að umfangsmikil bandarísk rannsókn hafi leitt í ljós víðtækt svindl með þá matvöru.

Á árunum 2010 til 2012 stóð óháð bandarísk stofnun, Oceana, fyrir umfangsmikilli alþjóðlegri rannsókn á sjávarafurðum, uppruna þeirra og merkingu. Rannsökuð voru 1200 sýnishorn frá 674 sölustöðum í 21 landi til að grafast fyrir um hvort tilgreindur fiskur væri í raun í innihaldinu. Með öðrum orðum hvort matvælin væru rétt merkt.

Niðurstaða ADN-rannsókna leiddi í ljós að þriðjungur var ranglega merktur og jafnvel að ekki hafði verið farið að áður útgefnum tilmælum bandarískra heilbrigðisyfirvalda.   

Í 120 tilvikum sem sagt var að verið væri að kaupa fisktegundina Red Snapper reyndust aðeins 7 sýnishornanna ósvikin. Og í annarri rannsókn árið 2011 kom í ljós, að 28% þorsks frá Írlandi var ranglega merktur. Í raun var þar á ferð gæðaminni og ódýrari fiskur.

Við Miðjarðarhafið er sverðfiskur vinsæll fiskréttur en þegar þeir panta hann eru allar líkur á að þeir fái hámeri. Þótt þessum tveimur tegundum svipi nokkuð saman, að sverðinu frátöldu, er sá síðarnefndi miklu ódýrari.

Í blaðinu er haft eftir sérfræðingi í sjávarlíffræði, að með nákvæmlega sama hætti og í tilviki íblandaðs nautakjöts sé hægt að beita svindli við framleiðslu hálf- og fullbúinna fiskrétta. Þegar til dæmis sé um að ræða fiskfingur og fisksteikur megi hæglega drýgja fiskinn með ódýrari fiski.

Það er ekki allt sem sýnist sem úr hafinu kemur. …
Það er ekki allt sem sýnist sem úr hafinu kemur. Hér syndir hafmeyja í sjávardýrasafni í Sao Paulo í Brasilíu. mbl.is/afp
Red Snapper var sjaldnast Red Snapper.
Red Snapper var sjaldnast Red Snapper. mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert