Hamborgarasala dregst saman um 43%

Frosin matvæli í verslun í London.
Frosin matvæli í verslun í London. AFP

Sala á frosnum hamborgurum í Bretlandi hefur dregist saman um 43% í kjölfar hins umfangsmikla hrossakjötshneykslis í Evrópu.

Birtar hafa verið fyrstu sölutölur um frosin matvæli frá því að málið komst upp. Á fjórum vikum dróst sala á frosnum hamborgurum saman um 43% í Bretlandi. Þá dróst sala á tilbúnum frosnum réttum saman um 13%.

Tvennt kemur til. Neytendur kaupa minna af frosinni matvöru eftir að málið kom upp og þá hafa framleiðendur tekið töluvert magn af vörum úr hillum verslana vegna gruns um að í þeim sé hrossakjöt, án þess að það komi fram í innihaldslýsingu.

Bretar eru mjög meðvitaðir um hrossakjötshneykslið. 96% fullorðinna Breta þekkja málið og 74% þeirra hafa áhyggjur af því, segir í frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert