Hugo Chavez berst fyrir lífi sínu

Hugo Chavez.
Hugo Chavez. AFP

Hugo Chavez, forseti Venesúela, berst nú fyrir lífi sínu að sögn varaforseta landsins, Nicolas Maduro. „Leiðtogi okkar er veikur vegna þess að hann helgaði þeim líf sitt sem ekkert eiga,“ sagði Maduro í sjónvarpsviðtali í Venesúela.

Maduro segir Chavez hafi ekki hugsað vel um sína heilsu vegna þess að hann hafi gefið fólkinu í landinu líkama sinn og sál.

„Hann berst fyrir lífi sínu, heilsu sinni, og við stöndum öll með honum,“ sagði varaforsetinn.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að Chavez hafi ekki sést opinberlega frá því hann gekkst undir skurðaðgerð vegna krabbameins í Kúbu í desember sl. Talið er að hann glími nú við alvarlega öndunarfærasýkingu.

Ríkisstjórn landsins hefur sagt að Chavez, sem er nú kominn aftur til Venesúela, stýri landinu á sjúkrahúsinu.

Chavez hefur verið forseti landsins í 14 ár. Aldrei hefur verið greint opinberlega frá því hvers konar krabbamein Chavez greindist með, en talið er að meinið sé í kringum mjöðmina.

Maduro segir að meðferðin við krabbameininu sé flókin og að staðan sé nú erfið. Chavez hefur útnefnt hann sem sinn arftaka á forsetastóli.

Chavez var endurkjörinn forseti í október sl., en kjörtímabilið í Venesúela er sex ár. Hæstiréttur landsins hefur úrskurðað að mögulega verði töf á því að Chavez sverji embættiseið sökum veikinda sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert