Aukið heimilisofbeldi eftir flóðbylgju

Eyðilegging eftir flóðbylgjuna í Miyagi-héraði.
Eyðilegging eftir flóðbylgjuna í Miyagi-héraði. AFP

Heimilisofbeldi hefur aukist verulega á svæðum í Japan sem illa urðu úti í flóðbylgjunni í mars árið 2011 og í nágrenni kjarnorkuvers sem lak í kjölfar hamfaranna.

Aukið andlegt álag og ótti við geislun frá Fukushima-kjarnorkuverinu, gæti verið um að kenna segir í nýrri skýrslu.

Í Fukushima var tilkynnt um 840 tilfelli heimilisofbeldis til lögreglu árið 2012 sem er 64% meira en árið á undan.

Í Miyagi héraði, sem varð sérstaklega illa úti eftir flóðbylgjuna, bárust 1.856 tilkynningar um heimilisofbeldi sem er þriðjungi meira en árið 2011.

Engin skilgreining á heimilisofbeldi var gefin í skýrslunni. Þar kemur fram að margir karlmenn hafi misst vinnuna og séu því meira inni á heimilinu. Því hafi spenna í fjölskyldum oft aukist.

Um 19 þúsund manns létust af völdum flóðbylgjunnar en tvö ár eru frá því að hún skall á Japan.

Þúsundir íbúa í Fukushima eru enn á vergangi og geta ekki snúið aftur til heimila sinna vegna geislunar frá verinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert