Ingibjörg Sólrún: Hefð fyrir refsileysi

„Ástandið er mjög erfitt,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, fulltrúa UN women í Kabúl. „Það er skortur á raunverulegum pólitískum vilja til að grípa til aðgerða sem bæta stöðu kvenna. Það er einnig hefð fyrir refsileysi.“

Hún segir það mjög ólíklegt að brotamenn séu látnir bera ábyrgð á glæpum sínum gegn konum. „Sumir karlmenn líta á konur sem eign sína, rétt eins og jarðlendi eða peningar.“

Shakila var myrt. Hún var skotin í bakið fyrir 13 mánuðum síðan í húsinu þar sem hún vann sem húshjálp fyrir auðugan stjórnmálamann í hverfi ríka fólksins í Afganistan.

Morðingi hennar hefur aldrei verið handtekinn og fjölskylda hennar leitar réttlætis. Sú leit hefur leitt í ljós þann grimmilega og flókna vef fátæktar og kvenfyrirlitningar og þá viðteknu  hefð réttarkerfisins að sumir njóti friðhelgi, þrátt fyrir miskunnarlausa glæpi.

Þeir sem vel þekkja til þessara mála segja að framfarir séu hægar í Afganistan, jafnvel þó að milljarðar dollarar hafi verið settir í það að bæta ástandið sem skapað var undir stjórn talíbana.

Brotthvarf alþjóðahers NATO sem fyrirhugað er á næsta ári hefur líka vakið upp áhyggjur um að sá takmarkaði árangur sem náðst hefur í réttindum og aðbúnaði kvenna muni þurrkast út á augabragði.

Shakila var sextán ára gömul. Hún eyddi síðustu sex mánuðum ævi sinnar við vinnu á heimili héraðsstjórnarfulltrúa í Bamiyan, bæ sem er um 180 kílómetrum vestur af Kabúl.

Fjölskylda hennar var fátæk og þurfti á launum hennar að halda. Lík hennar fannst á heimili vinnuveitandans í janúar í fyrra.

„Lögreglan segir okkur að hún hafi verið skotin í bakið,“ segir 18 ára bróðir hennar, Mohammad Alam Sadiqat. „Og læknar segja okkur að henni hafi verið nauðgað.“

Í landi þar sem meydómur ógiftra kvenna er talinn heilagur kallar nauðgun gríðarlega skömm yfir fjölskylduna. Fjölskyldurnar dirfast þó sjaldnast að kæra og ræða kynferðislegt ofbeldi opinberlega.

Fæst fórnarlömb nauðgana í Afganistan nefna nokkru sinni nafn nauðgara síns. Þær óttast það að verða fyrir aðkasti og útskúfun. Þá óttast þær jafnvel að verða drepnar.

Mágur Shakilu, sem vinnur sem öryggisvörður í húsi héraðsfulltrúans, var settur í fangelsi í sex mánuði í tengslum við morðið. Eftir það var honum sleppt úr haldi.

Esmail Zaki sem fer fyrir mannúðarsamtökum á svæðinu, hóf í kjölfarið að rannsaka málið.

„Við komumst að því að saksóknarinn og dómskerfið hefði farið í ranga átt. Þau höfðu sannanir fyrir því að mágurinn var ekki einu sinni á svæðinu er morðið var framið,“ segir Zaki.

Morðið á Shakilu náði aldrei til dómstólanna í Bamiyan. Því var nýverið vísað til saksóknara í Kabúl.

Vinnuveitendur Shakilu neita því harðlega að vita nokkuð um morðið. Lögreglan hefur hvítþvegið fólkið.

„Við gerðum allar nauðsynlegar rannsóknir. Við lukum málinu og afhentum það svo saksóknara,“ segir lögreglustjórinn, Mohammad Ali Lagzi.

Embættismaður í borgarkerfi Bamiyan segir að fátækt fjölskyldu Shakilu vinni gegn henni. Ólíklegt sé að réttlætinu verði fullnægt. Hann telur að engu breyti þó málinu hafi verið vísað til Kabúl.

„Morðið var framið inni á heimili fulltrúa í héraðsstjórninni,“ segir hann. „Þetta er valdamikið fólk.“

Í desember greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að aðstæður afganskra kvenna hefðu batnað og að fleiri ofbeldismál væru nú tekin fyrir hjá dómstólum landsins.

En í þeim 16 af 34 héruðum sem Sameinuðu þjóðirnar náðu að safna upplýsingum hjá lauk aðeins 21% af þeim 470 kærum um ofbeldi gegn konum, með sakfellingu.

„Ástandið er mjög erfitt,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir, fulltrúa UN women í Kabúl.

„Það er skortur á raunverulegum pólitískum vilja til að grípa til aðgerða sem bæta stöðu kvenna. Það er einnig hefð fyrir refsileysi.“

Hún segir það mjög ólíklegt að brotamenn séu látnir bera ábyrgð á glæpum sínum gegn konum. „Sumir karlmenn líta á konur sem eign sína, rétt eins og jarðlendi eða peningar.“

Bamiyan er eitt af framsæknustu héruðum Afganistans. Héraðið er það eina sem er stjórnað af konu og hvergi eru jafnmargar stúlkur í skóla.

Stjórnendur héraðsins segir að tilkynningum um ofbeldi gegn konum hafi fjölgað frá 48 árið 2011 í 57 í fyrra. Fatima Kazemi sem fer fyrir málefnum kvenna í héraðinu, segir að vitundarvakningu sé að þakka.

„Núna vita fleiri konur að það er fólk sem getur hjálpað þeim, staðið með þeim og varið málstað þeirra,“ segir hún.

Sömu sögu er að segja á landsvísu. Marka má aukningu í tilkynningum um ofbeldi gegn konum. Verst sé ástandið í dreifbýli.

„Ef eiginmaður myrðir eiginkonu sína fær hann tvö ár í fangelsi. En ef kona drepur eiginmann sinn getur hún átt von á 16 ára fangelsi,“ segir Latifa Sultani, talsmaður kvennasamtaka í Afganistan.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert