Lík Chavez verður smurt

Þjóðarsorg ríkir í Venesúela og ljóst að margir fagna því …
Þjóðarsorg ríkir í Venesúela og ljóst að margir fagna því að geta til huggunar virt smurt lík leiðtogans Chavez fyrir sér um ókomna tíð. AFP

Hugo Chavez mun á næstunni bætast í félagsskap ekki ómerkari manna en Jósefs Stalíns, Ho Chi Minh og Mao Zedong þegar lík hans verður smurt og það varðveitt í glerkistu „til eilífðarnóns“. Varðveisla á líki hans mun að mati sérfræðinga fylla upp í ákveðið pólitískt tóm eftir dauða hans að mati sérfræðinga.

Það var pólitískur arftaki Chavez, varaforsetinn Nicolas Maduro, sem tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að smyrja leiðtogann fallna „rétt eins og Ho Chi Minh, Lenin og Mao“. Chavez lést á þriðjudag, 58 ára aldri, eftir um tveggja ára baráttu við krabbamein.

Gerður ódauðlegur

Markmiðið með því að varðveita lík forsetans er að tryggja að hinn s.k. „Chavismi“ viðhaldist í Venesúela, með áframhaldandi stjórnarfari byggðu á vinstrisinnaðri hugmyndafræði forsetans og byltingarleiðtogans Chavez. Þetta segir Juan Carlos Trivino, prófessor í stjórnmálafræði við Pompeu Fabra-háskóla í Barcelona.

Hann segir að nærvera Chavez hafi vofað yfir og allt um kring í Venesúela. „Íbúar Venesúela eru að missa afar sterkan karakter í þjóðarsálinni með fráfalli hans. Með því að smyrja líkið er hægt að varðveita efnið og þannig viðhalda ákveðinni nálægð hans.“ Chavez verði þannig að vissu leyti gerður ódauðlegur og hugmyndafræði hans um leið.

Til stendur að líkið verði til sýnis í fyrirhuguðu Byltingarsafni. Ákveðinn þrýstingur er þó meðal almennings um að Chavez muni, þegar fram í sækir, liggja við hlið suðuramerísku sjálfstæðishetjunnar Simon Bolivar, sem Chavez vísaði oft til sem fyrirmyndar sinnar og innblásturs.

Persónudýrkun hentar einræðinu

Algengt er í einræðisríkjum að magna upp persónudýrkun á leiðtoganum til að tryggja lögmæti stjórnvalda. Líksmurning er ein aðferð til að viðhalda persónudýrkuninni út yfir gröf og dauða, segir Jósef Cheng, prófessor í stjórnmálafræði við Hong Kong-háskóla.

„Með persónudýrkun er hægt að búa til alls konar mýtur til að styrkja fólk í trúnni á ríkjandi stjórnvöld og viðhalda völdum þeirra,“ segir Cheng. „Það hjálpar einræðisstjórnum að gefa stjórnmálum dularfullan blæ.“

Í Norður-Kóreu má sem dæmi virða fyrir sér lík Kim Il-Sung, hins „mikla leiðtoga“ í risastóru glergrafhýsi undir sterku kastljósi í forsetahöllinni í útjaðri Pyonyang. 

Líkið sprautað fullt og smurt vaxi

Líksmurningin sjálf er fjarri því einfalt ferli, ef marka má franska réttarlæknis- og sagnfræðinginn Philippe Charlier. „Líkamannum er haldið við nánast í heilu lagi með því að sprauta það fullt af formalíni, sótthreinsunarefni og efnum til að halda líkamsvefjunum þurrum og síðan er líkið þakið vaxi.“

Þannig er hægt að halda líkinu saman og koma í veg fyrir rotnun, en þar sem það er til sýnis sem táknmynd þarf líka að gæta þess að svipur leiðtogans haldist friðsæll og fallegur.

Rússnesk sérþekking í líksmurningu

Helstu sérfræðinga heims í líksmurningu er að finna í Rússlandi enda hafa þeir þurft að vinna hörðum höndum að því að viðhalda líkum Stalíns og Leníns undanfarna áratugi.

Lík Leníns var sem dæmi smurt eftir dauða hans árið 1924 og hefur allar götur síðan verið til sýnis í grafhýsi á Rauða torginu. Eftirmaður hans Stalín var sömuleiðis smurður eftir dauða hans sem bar upp á sömu dagsetningu og dauða Chavez, 5. mars, en að vísu 60 árum fyrr árið 1953.

Rússnesku sérfræðingarnir hafa einnig tekið að sér að smyrja lík fleiri kommúnistaleiðtoga í Sovétríkjunum fyrrverandi, t.d. hins búlgarska Georgi Dimitrov árið 1949, auk líks Kim Il-Sung árið 1994.

Lík Jósefs Stalíns var smurt eftir dauða hans.
Lík Jósefs Stalíns var smurt eftir dauða hans. mbl.is
Valdimír Lenín hefur legið smurður til sýnis í grafhýsi sínu …
Valdimír Lenín hefur legið smurður til sýnis í grafhýsi sínu á Rauða torginu síðan 1924.
Ho Chi Minh kommúnistaleiðtogi Víetnam er til sýnis í grafhýsi …
Ho Chi Minh kommúnistaleiðtogi Víetnam er til sýnis í grafhýsi í Hanoi.
Þúsundir manna heimsækja lík Mao Zedong á Torgi hins himneska …
Þúsundir manna heimsækja lík Mao Zedong á Torgi hins himneska friðar á degi hverjum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert