Lögregla rannsakar dauða auðkýfings

Boris Berezovsky fannst látinn á heimili sínu í dag, 67 …
Boris Berezovsky fannst látinn á heimili sínu í dag, 67 ára gamall. AFP

Breska lögreglan sagði í kvöld að rannsókn væri hafin á „óútskýrðum“ dauða hins útlæga rússneska auðkýfings, Boris Berezovsky, sem fannst látinn á heimili sínu í dag.

Orðrómur er uppi um að Berezovsky hafi svipt sig lífi. Lögmaður hans, Alexander Dobrovinsky, sagði í viðtali við fréttastöðina Rossiya 24 að Berezovsky hefði þjáðst af alvarlegu þunglyndi vikum saman og verið illa staddur. „Hann var skuldugur. Honum fannst hann eyðilagður. Hann neyddist til að selja öll málverkin sín og aðrar eigur, “sagði Dobrovinsky.

Vinur auðkýfingsins, Demyan Kudryvtsev, hafnar því hinsvegar alfarið að Berezovsky hafi svipt sig lífi. „Enginn veit það fyrir víst. Það sjást engin ummerki um sjálfsvíg. Það eru engin merki um að hann hafi sprautað sig eða gleypt pillur,“ sagði Kudryvtsev í samtali við Prime fréttastofuna.

Berezovsky auðgaðist gríðarlega snemma á sölu innfluttra bíla í Rússlandi á 10. áratugnum og var mjög valdamikill bak við tjöldin í forsetatíð Borís Jeltsín. Eftir að hann komst upp á kant við Vladimir Pútín hraktist hann á endanum af landi brott og fluttist í sjálskipaða útlegð til Bretlands, þar sem fjarað hefur undir auði hans síðustu ár.

Í vikunni sem leið neyddist Berezovsky til að selja á uppboði eitt af málverkum sínum eftir Andy Warhol, en hann mun hafa verið ástríðufullur málverkasafnari. Á undanförnum vikum hafði hann selt fleiri eigur sínar.

Sagður hafa beðið Pútín fyrirgefningar

Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði eftir að fregnin um dauða hans spurðist út í kvöld að fyrir nokkrum mánuðum hefði Berezovsky beðist griða. Hann hefði sent Vladimír Pútín persónulegt bréf þar sem hann viðurkenndi mikil mistök. 

„Hann bað Pútín um fyrirgefningu fyrir mistök sín og óskaði eftir því að fá tækifæri til að snúa aftur til móðurjarðarinnar,“ sagði Peskov og bætti því við að hann vissi ekki til þess að Pútín hefði svarað.

„Það eina sem ég get sagt er að mér er til efs að fregnir af dauða slíks manns kalli fram einhver jákvæð viðbrögð, “sagði Peskov.

Eftirlýstur auðkýfingur finnst látinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert