Bendir Kýpurbúum á Ísland

AFP

Hagfræðiprófessor við háskólann í Maryland, Peter Morici, segir að tækifæri Kýpur geti legið í því að yfirgefa evrusamstarfið og tekur Ísland sem dæmi af landi sem hafi náð sér á strik á tiltölulega skömmum tíma úr svipuðum fjárhagsvanda og Kýpur. Það megi rekja til þess að Ísland sé með sinn eigin gjaldmiðil.

Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades, varaði við því í dag að hann yrði jafnvel neyddur til þess að láta af embættinu en hann situr nú á fundi með leiðtogum Evrópusambandsins í Brussel. Stutt er í að sá frestur sem Kýpur fékk til þess að reiða fram 5,8 milljarða tryggingu fyrir 10 milljarða evra láni renni út. Ef ekki tekst að ná samkomulagi stefnir Kýpur í þrot og verður rekið úr myntbandalagi Evrópu.

„Ætlið þið að neyða mig til að segja af mér?“ hefur fréttastofa Kýpur eftir Anastasiades á fundi með leiðtogum ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í snævi þakinni Brussel. „Ég kem með tilboð og þið hafnið því. Ég geri ykkur annað og það er sama sagan. Hvað viljið þið að ég geri?“ er haft eftir honum.

Stefnt er að því að opna banka á Kýpur á þriðjudag eftir að þeir hafa verið lokaðir í tíu daga. Tveir stærstu bankar landsins hafa nú takmarkað úttektir úr hraðbönkum við 100 evrur á dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert