Bankar opnir í dag á Kýpur

Öryggisgæsla hefur verið hert til muna á Kýpur í dag en bankar verða opnir í dag, í fyrsta skipti í tæpar tvær vikur. Þrátt fyrir að hægt verði að sinna bankaviðskiptum á Kýpur í dag verður það háð skilyrðum. Til að mynda má ekki taka út meira en 300 evrur á dag. Eins hefur gjaldeyrishöftum verið komið á.

Í gærkvöldi fylgdu vopnaðir lögregluþjónar peningaflutningabílum sem komu með fé til Seðlabankans.

Höftin eru þau fyrstu sem sett eru í evru-ríki en eitt af grundvallaratriðum Evrópusambandsins er frjálst flæði fjármagns. Það ákvæði hefur nú verið brotið á Kýpur.

Á vef breska ríkisútvarpsins er farið yfir hvað felist í höftunum á Kýpur en þar má nefna að ekki er tekið við ávísunum, þeir sem ferðast til útlanda mega ekki taka meira en 1.000 evrur út úr landinu og að hámarki má greiða með kredit- eða debetkorti í útlöndum fyrir  fimm þúsund evrur á mánuði. Sérstök nefnd fer yfir beiðnir um millifærslur fyrir 5-200 þúsund evrur. Allar millifærslur yfir 200 þúsund evrur verða skoðaðar sérstaklega.

Þeir sem eiga 100 þúsund evrur eða meira inni á bankareikningum þurfa að greiða skatt sem fellst í því að hluta fjárhæðarinnar verður breytt í hlutabréf í kýpverskum bönkum. Er þetta meðal þeirra leiða sem stjórnvöld beita til þess að ná 5,8 milljörðum evra tryggingu sem var gerð að skilyrði fyrir 10 milljarða evra láni Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Kýpur.

Um 1.500 manns tóku þátt í mótmælum í Nikosíu í gær gegn skilmálum neyðarláns sem Kýpur verður veitt til að bjarga bönkum landsins.

Kommúnistaflokkurinn Akel stóð fyrir mótmælunum og þátttakendurnir hrópuðu vígorð gegn „þríeykinu“ sem setti skilmálana, þ.e. Evrópusambandinu, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaleyrissjóðnum.

Samkvæmt skilmálum neyðarlánsins á einnig að endurskipuleggja Kýpurbanka, stærsta banka landsins, og draga úr umsvifum næststærsta bankans, Laiki. Bankastjóri Kýpurbanka sagði af sér í gær og kýpverskir ríkisfjölmiðlar sögðu að seðlabankastjóri landsins hefði knúið hann til afsagnar að fyrirmælum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fjármálaráðherra Kýpur, Michalis Sarris, sagði að þeir sem ættu meira en 100.000 evrur á reikningum hjá Laiki-bankanum gætu tapað allt að 80% af innistæðunum. Áður hafði verið skýrt frá því að viðskiptavinir Kýpurbanka gætu tapað allt að 40% af innistæðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert