Þingmaður kærir The Sun

breski þingmaðurinn Andrew Mitchell, sem hefur kært The Sun.
breski þingmaðurinn Andrew Mitchell, sem hefur kært The Sun. AFP

Breski þingmaðurinn Andrew Mitchell, sem áður gegndi embætti þingflokksformanns breska Íhaldsflokksins og var ráðherra alþjóðlegra þróunarmála, hefur höfðað mál á hendur slúðurblaðinu The Sun, sem er í eigu ástralska fjölmiðlajöfursins Ruperts Murdochs.

Mitchell sagði af sér embætti í október eftir að hafa setið undir harðri gagnrýni vegna orðaskipta sinna við lögreglukonu og segir The Sun hafa fjallað um málið á ómaklegan hátt.

Mitchell segir að umfjöllun blaðsins hafi kostað sig starfið, en í blaðinu var því haldið fram að hann hefði kallað lögreglukonuna „plebba“ í lok september. Mitchell var að fara frá Downing-stræti og hugðist fara út um aðalhliðið á reiðhjóli sínu. Lögreglukonan segist hafi bent Mitchell á að gert væri ráð fyrir að þeir sem væru á hjóli færu út um annað hlið sem væri ætlað þeim sem væru fótgangandi.

Mitchell sætti sig ekki við það og upphófust deilur á milli þeirra sem eru sagðar hafa endað á þann veg að hann hafi kallað lögreglukonuna plebba. Hann viðurkennir að þau hafi deilt, en harðneitar að hafa notað þetta orð og kærir nú The Sun fyrir að halda því fram og segir að um ófrægingarherferð gegn sér sé að ræða.

Hann hefur ennfremur lagt fram formlega kvörtun til lögreglunnar vegna málsins og hafa fjórir verið handteknir vegna þess, þar af þrír lögreglumenn, sem eru sakaðir um að hafa lekið upplýsingum um málið til fjölmiðla.

Talsmaður The Sun segir í samtali við AFP-fréttastofuna að blaðið muni standa við umfjöllun sína og „verjast af kappi“.

Frétt mbl.is: Mitchell neyddist til að segja af sér

mbl.is